Umfjöllun og viðtöl: ÍBV - FH 1-0 | Eyjapeyinn Gunnar Heiðar tryggði ÍBV fyrsta titilinn í nítján ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leikmenn ÍBV fagna bikarmeistaratitlinum með stuðningsmönnum í bakgrunni.
Leikmenn ÍBV fagna bikarmeistaratitlinum með stuðningsmönnum í bakgrunni. mynd/hafliði breiðfjörð
Nítján ára bið Eyjamanna eftir stórum titli lauk í dag þegar þeir unnu 1-0 sigur á FH í úrslitaleik Borgunarbikars karla á Laugardalsvelli.

Gunnar Heiðar Þorvaldsson, elsti og reyndasti leikmaður ÍBV, skoraði eina mark leiksins á 37. mínútu. Þegar Gunnar Heiðar kom aftur heim í ÍBV fyrir tveimur árum lofaði hann titli og hann hefur nú staðið við loforðið.

Leikáætlun ÍBV gekk fullkomlega upp í fyrri hálfleik. Eyjamenn voru þéttir til baka og beittu góðum skyndisóknum. Mikkel Maigaard fékk tvö úrvals færi eftir tvær slíkar og markið kom einnig eftir skyndisókn.

Þórarinn Ingi Valdimarsson tapaði þá boltanum á miðjunni, Kaj Leo í Bartalsstovu fékk hann úti hægra megin og átti eitraða sendingu inn á teiginn þar sem Gunnar Heiðar var á tánum, stakk sér fram fyrir Pétur Viðarsson og skoraði.

Eftir slakan fyrri hálfleik mættu FH-ingar öflugir til leiks í þeim seinni. Þeir herjuðu á Eyjamenn og markið lá í loftinu. En eftir um 65 mínútur datt botninn algjörlega úr leik FH-inga og það sem eftir lifði leiks var ÍBV líklegra til að bæta við en FH að jafna.

Eyjamenn fengu fullt af skyndisóknum sem þeir fóru illa með. Gunnar Nielsen kom FH-ingum líka til bjargar með góðum markvörslum.

Það braust svo út mikill fögnuður á meðal Eyjamanna á vellinum og í stúkunni þegar Vilhjálmur Alvar Þórarinsson flautaði til leiksloka. Lokatölur 1-0, ÍBV í vil.

Af hverju vann ÍBV?

Kristján Guðmundsson, þjálfari ÍBV, mætti með leikáætlun sem gekk nánast fullkomlega upp. Varnarleikur Eyjamanna var þéttur og sóknarmenn FH-inga komust ekkert áleiðis í fyrri hálfleik.

Þegar Eyjamenn unnu boltann sóttu þeir svo hratt og af krafti. Flestar skyndisóknirnar fóru í gegnum Kaj Leo sem var síógnandi. Það gekk ekki allt upp hjá honum en hann var alltaf tilbúinn að leika á mótherja og reyna úrslitasendingar. Og ein slík skilaði markinu sem skildi liðin að.

Í seinni hálfleik juku FH-ingar pressuna. Guðmundur Karl Guðmundsson kom inn á fyrir slakan Þórarin Inga og sú breyting hleypti lífi í Íslandsmeistarana. Á tímabili lá jöfnunarmarkið í loftinu en það kom aldrei. Og eftir því sem leið á seinni hálfleikinn fór mesti krafturinn úr leik FH. Heimir Guðjónsson setti Bjarna Þór Viðarsson og Atla Viðar Björnsson inn á en það breytti litlu.

Á endanum voru FH-ingar lánsamir að fá ekki á sig fleiri mörk því ekki vantaði færin hjá Eyjamönnum á lokamínútunum.

Þessir stóðu upp úr:

Eins og áður sagði var Kaj Leo útgangspunkturinn í skyndisóknum Eyjamanna, alltaf hættulegur og lagði upp markið. Gunnar Heiðar hefur verið heitur að undanförnu og það breyttist ekkert í dag. Hann skoraði sigurmarkið og var þess utan skynsamur, hélt boltanum vel og róaði leikinn þegar þess þurfti.

Varnarleikur Eyjamanna var svo til fyrirmyndar. Það lá á þeim í upphafi seinni hálfleiks en þeir stóðust áhlaupið. Bretarnir Brian McLean og David Atkinson hafa reynst ÍBV virkilega vel og Sindri Snær Magnússon stóð sig vel í stöðu miðvarðar.

Gunnar Nielsen var besti leikmaður FH í leiknum en hann varði þrisvar sinnum frá leikmönnum ÍBV í dauðafærum.

Hvað gekk illa?

FH-ingar tóku nánast ekki þátt í fyrri hálfleiknum. Þar var flatneskjan alls ráðandi, sóknarleikurinn bitlaus og enginn kraftur í liðinu.

Meistararnir spiluðu vel fyrstu 20 mínúturnar í seinni hálfleik en tókst ekki að skora. Og eftir það komust þeir ekki aftur í gang.

Hvað gerist næst?

Eyjamenn fagna þessum langþráða titli væntanlega eins og þeim einum er lagið.

Þrátt fyrir bikarsigurinn er staða þeirra í Pepsi-deildinni ekki góð. ÍBV á gríðarlega mikilvæga leiki gegn Víkingi Ó. og ÍA í næstu tveimur umferðum.

FH-ingar sleikja sárin í kvöld en fara svo að undirbúa sig fyrir Evrópuleikinn gegn Braga á fimmtudaginn.

Gunnar Heiðar: Draumur síðan ég var lítill peyji
Gunnar Heiðar fangar sigurmarkinu.Vísir/Hafliði Breiðfjörð
„Tilfinningin er hrikalega góð, ég er svo stoltur að það hálfa væri nóg. Þetta er búinn að vera draumur síðan ég var lítill peyji að vinna titil með ÍBV,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson leikmaður ÍBV en tryggði ÍBV bikarmeistaratitilinn með því að skora eina mark leiksins gegn FH í dag.

Eyjamenn töpuðu fyrir Val í úrslitum í fyrra og margir sem höfðu ekki trú á Gunnari Heiðari eftir meiðslahrjáðan vetur. Hélt hann eftir leikinn í fyrra að hann fengið annað tækifæri til að vinna titil með ÍBV?

„Ef ég á að vera hreinskilinn þá hélt ég ekki. Ég hélt að það hefði verið minn síðasti séns að ná í titil sem leikmaður. Svo byrjaði maður aftur og hugsaði að ég skyldi taka bikar með þessu liði. Þetta er geggjað. Ég er raddlaus, gjörsamlega búinn á því en stuðningurinn hér frá fólkinu okkar sem kom frá Eyjum. Við fáum þennan aukakraft þegar allir standa saman og við sjáum það í dag,“ bætti Gunnar Heiðar við.

ÍBV er í fallsæti í Pepsi-deildinni og flestir á því að FH væri sigurstranglegri aðilinn fyrir leikinn í dag.

„Það er ekki í fyrsta sinn að allir séu búnir að dæma okkur í eitthvað rugl. Við höfum sýnt að þegar leikmenn og áhorfendur standa saman þá getum við allt. Planið okkar var að virka en auðvitað var þetta erfiðara í seinni hálfleik og þeir komust betur inn í þetta. En mér gæti ekki verið meira sama, við erum bikarmeistarar.“

Eyjamenn hafa verið þekktir fyrir magnaðar móttökur í Vestmannaeyjum þegar íþróttaliðin þeirra koma heim með bikar. Gunnar Heiðar sagðist afar spenntur fyrir kvöldinu.

„Ég er búinn að horfa svo oft á handboltaliðið koma heim síðustu ár og hugsa hvað mig langi að gera þetta með fótboltanum. Nú er það að gerast og það verður sko nýtt,“ sagði hetja Eyjamanna að lokum.

Kristján: Þjóðhátíð númer tvö og þrjú
Kristján Guðmundsson, þjálfari bikarmeistara ÍBV.Vísir
„Þetta er rosalegt, ég er svo glaður að það er með ólíkindum. Það hafði enginn trú á okkur í undanúrslitum, það hafði enginn trú á okkur í úrslitum og við vinnum örugglega í bæði skiptin. Gleðin sko, gleðin,“ sagði Kristján Guðmundsson þjálfari bikarmeistara ÍBV í sigurvímu eftir að lið hans tryggði sér Borgunarbikarinn eftir sigur á FH í úrslitaleik.

ÍBV var töluvert sterkara liðið í fyrri hálfleik og fékk færi til að skora áður en Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom þeim yfir á 37.mínútu.

„Það skipti alveg töluvert miklu máli að skora fyrir hlé. Við vorum alveg öruggir að við þyrftum jafnvel tvö til að vinna en það er geggjað að halda hreinu gegn FH. Það var mjög sterkt að skora í fyrri hálfleik,“ bætti Kristján við.

Stuðningurinn sem Eyjamenn fengu í stúkunni í dag var frábær og má með sanni segja að þar hafi þjóðhátíð verið framhaldið frá síðustu helgi.

„Við vorum búnir að tala um að það yrði þjóðhátíð númer tvö og bráðum númer þrjú og þetta er geggjað. Við vildum að fólkið kæmi hingað að syngja og skemmta sér og við myndum vita af þeim í bakgrunninum og þá myndum við vinna þetta,“ sagði Kristján að lokum áður en hann var rokinn í fögnuðinn með sínum mönnum.

Heimir: Litum ekki á þetta sem forréttindi
Heimir Guðjónsson þjálfari FH var svekktur í leikslok eftir tapið gegn ÍBV í úrslitum Borgunarbikarsins.

„Við mættum aldrei í leikinn. Þess vegna töpuðum við honum og í fyrri hálfleik var nánast bara eitt lið á vellinum,“ sagði Heimir í samtali við Vísi eftir leik.

„Eyjamenn voru betri en það var meira líf í okkur í seinni hálfleik. Þá sköpuðum við ágætis færi til að jafna en það gekk ekki eftir. Ég vil nota tækifærið til að óska ÍBV til hamingu með bikarititilinn.“

Flestir töldu FH sigurstranglegra liðið fyrir leikinn en Heimir gaf lítið fyrir það að það hefði truflað hans menn fyrir leikinn.

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég hef alltaf ímyndað mér það, og þekki það sjálfur, að bikarúrslitaleikur sé stærsti leikur sumarsins og forréttindi að fá að spila svona leik. Við litum ekki á þetta sem forréttindi,“ sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH.

Davíð Þór: Vestmannaeyingar áttu skilið að vinna þennan leik
Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH sagði það ekki hafa komið FH-ingum á óvart af hversu miklum krafti Eyjamenn hefðu mætt til leiks í dag.

„Það kom okkur að sjálfu sér ekki á óvart hvernig þeir mættu. Það kom mér hins vegar á óvart að við skyldum ekki vera tilbúnir og ekki á tánum. Við vorum ekki að gera það sem við ætluðum okkur að gera,“ sagði Davíð Þór í samtali við Vísi eftir leik.

Leikplan FH gekk ekki upp og Davíð sagði að FH-ingar hefðu komið sjálfum sér á óvart með lélegum leik.

„Við ætluðum að setja meiri pressu á þá. Við náðum því ekki, þeir voru fljótir að koma boltanum upp í hornin á Kaj Leó og við vorum í stökustu vandræðum með að verjast því þó svo að þjálfararnir hafi talað um það fyrir leikinn að það væri eitthvað sem þeir gerðu mikið af. Það er svekkjandi að hafa ekki náð að ráða við það, fyrri hálfleikurinn var afar svekkjandi.“

„Við fengum þrjú góð færi í seinni hálfleik, þeir bjarga á línu og við setjum boltann yfir. Ef maður horfir á leikinn í heild sinni þá áttu Vestmannaeyingarnir skilið að vinna þennan leik. Við þurfum að vera nógu miklir menn til að viðurkenna það,“ sagði fyrirliði FH að lokum.

Garner: Við eigum sigurinn skilinn
Matt Garner er á sínu tólfta tímabili með ÍBV og var að vinna sinn fyrsta titil með félaginu. Hann sagði tilfinninguna frábæra.

„Þetta er frábært. Við unnum 1.deildina árið 2008 en þetta er augljóslega besti dagurinn síðan ég kom, að vinna loksins,“ sagði Matt í samtali við Vísi að leik loknum.

Flestir áttu von á sigri FH í dag enda ÍBV í fallsæti í Pepsi-deildinni á meðan FH er í baráttunni í efri hlutanum. Matt sagði það engu máli hafa skipt í dag.

„Þeir eyða auðvitað miklum pening í sitt lið og okkar lið kemst ekki nálægt þeirra hvað varðar peninga. Mér fannst við frábærir í fyrri hálfleik sérstaklega og eiga sigurinn skilinn. Þeir settu pressu í seinni hálfleik en sköpuðu ekki mörg færi. Við hefðum getað bætt við 2-3 mörkum.“

Matt var á því að sigurinn í dag myndi hjálpa Eyjamönnum í baráttunni sem framundan er í deildinni.

„Klárlega mun það gera það. Að vinna fótboltaleik hjálpar alltaf. Við skemmtum okkur í kvöld en síðan byrjar vinnan á morgun. Leikurinn gegn Víkingi Ólafsvík verður annar úrslitaleikur og við þurfum að ná í þrjú stig þar,“ sagði Matt Garner að lokum.

Sindri Snær: Það er ekki hægt að lýsa þessu
„Þetta er yndislegt, ógegðslega gaman. Það er ekki hægt að lýsa þessu. Ég er búinn að reyna tvisvar áður og þetta tókst núna,“ sagði fyrirliði ÍBV, Sindri Snær Magnússon, í samtali við Vísi eftir sigurinn á FH í úrslitaleik Borgunarbikarsins.

Eyjamenn voru mun betra liðið í fyrri hálfleik og skoruðu þá eina mark leiksins.

„Við ætluðum ekki að leyfa þeim að fá neinn tíma í byrjun og mér fannst við geggjaðir í fyrri hálfleik. Svo duttum við aðeins of aftarlega í seinni hálfleik og síðustu tíu mínúturnar hefðum við getað refsað þeim tvisvar þrisvar. Fyrri hálfleikur var mun betri en seinni og það dugði í dag.“

Eyjamenn fóru á kostum í stúkunni og slógu upp þjóðhátíð á Laugardalsvelli. Hversu miklu máli skipti stuðningurinn í dag?

„Stúkan gaf okkur mikinn kraft og áhorfendur voru geggjaðir í dag. Þeir voru fleiri en í fyrra og ég get ekki beðið eftir að hitta fólkið í Dallinum á eftir,“ bætti Sindri Snær við.

Sindri á von á góðum móttökum þegar liðið siglir með bikarinn til Vestmannaeyja í kvöld.

„Ætli það verði ekki blys og flugeldar, við siglum inn og verðum uppi á þaki úti á dekki. Þetta verður geðveikt og ég er búinn að hugsa um þetta margar nætur síðan ég fór til Eyja fyrir tveimur árum. Ég get ekki beðið eftir að fara í Herjólf, ég er ekki að grínast, þetta verður besta sigling sem ég hef farið í,“ sagði kampakátur fyrirliði Eyjamanna að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira