Lögreglan í Danmörku gerir nú ráð fyrir að sænska blaðakonan Kim Wall sé látin og að henni hafi verið kastað í sjó. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglunnar til fjölmiðla.
„Ég get ekki sagt mikið,“ sagði lögreglustjórinn Jens Møller Jensen í samtali við danska ríkisútvarpið.
„En við byggjum á þeim forsendum að við séum að leita að látinni manneskju í svæðinu í kringum Køge, bæði í danskri og sænskri lögsögu.“
Kim Wall hefur ekki sést frá því á fimmtudaginn í síðustu viku. Hún fór í kafbátasiglingu með danska auðkýfingnum Peter Madsen í þeim tilgangi að skrifa um kafbátinn og siglinguna. Madsen neitar því að hafa orðið Wall að bana en hann er nú í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Bátum sökkt af ásettu ráði
Lík Wall fannst ekki í kafbátnum þar sem leitað var á sunnudag.
Kærasti Wall tilkynnti hvarf hennar þegar hún skilaði sér ekki úr ferðinni. Þegar samband náðist við Madsen í gegnum talstöð sagðist hann vera á leið aftur til hafnar. Hins vegar sökk báturinn í Køgesundi á föstudaginn. Madsen var bjargað en Wall hefur ekki fundist.
Samkvæmt SVT sagði Madsen að hann hefði hleypt Wall í land í Kaupmannahöfn á fimmtudagskvöldinu. Seinna mun hann þó hafa breytt sögu sinni og gefið lögreglu aðra útskýringu.
Lögreglan hefur sagst hafa ástæðu til að halda að bátnum hafi verið sökkt af ásettu ráði.