Innlent

Innheimta bílastæða- og atvinnuleyfagjöld í Vatnajökulsþjóðgarði

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Byrjað verið að rukka frá og með 9.ágúst
Byrjað verið að rukka frá og með 9.ágúst mynd/Klaus Kretzer
Frá og með 9. ágúst næstkomandi mun Vatnajökuls­þjóðgarður innheimta gjald fyrir skráðar bifreiðar og bifhjól sem koma í Skaftafell. Gjaldið fyrir venjulegan fólksbíl verður 600 krónur fyrir sólarhringinn.

Notað verður sjálfvirkt myndavélakerfi frá fyrirtækinu ComputerVision ehf. Mun það nema skráningarnúmer ökutækja og stofna kröfu í þar til gerðu smáforriti í snjallsíma þess sem skráður er fyrir tækinu. Verði sú krafa ekki greidd stofnast krafa í heimabanka.

„Það er tekin mynd á leiðinni inn og aftur á leið út. Engar myndir eru geymdar nema rétt á meðan farartæki eru inni á svæðinu,“ segir Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Þórður segir að samningurinn við ComputerVision hafi farið í gegnum verðkönnun hjá Ríkiskaupum. Sá er til eins árs og tekur fyrirtækið prósentu af þeim gjöldum sem inn koma. Áætlað er að upphæðin sem innheimtist komi til með að hlaupa á tugum milljóna.

Gjaldtakan var innleidd með reglugerð sem sett var um miðjan síðasta mánuð. Auk þess að heimila gjaldtöku fyrir notkun bílastæða hækkar gjaldskráin fyrir aðra þjónustu á svæðinu. Þar má nefna tjald­gistingu, gistingu í skála og sérstæka þjónustu sem felur í sér sérstakt vinnuframlag af hálfu starfsmanna. Hið síðastnefnda hækkar um 60 prósent og verður 16 þúsund fyrir klukkustundina.

Þá verður nú heimilt að rukka fyrir útgáfu atvinnuleyfa í þjóðgarðinum, alls 25 þúsund krónur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×