Sport

Bolt hundóánægður með fyrsta hlaupið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Usain Bolt ræðir hér við Justin Gatlin.
Usain Bolt ræðir hér við Justin Gatlin. Vísir/Getty
Usain Bolt var afar ósáttur við sjálfan sig og rásblokkirnar sem notaðar voru í undanrásum 100 m hlaups karla á HM í frjálsum í gær.

Eftir slæma byrjun náði Bolt að sigra í sínum riðli í undanrásunum og komast örugglega áfram. Undanúrslitin og úrslitin fara fram í dag en þetta verður í síðasta sinn sem Bolt keppir í 100 m hlaupi.

Bolt hljóp á 10,07 sekúndum og skokkaði síðustu metrana. En hann hristi hausinn þegar hann kom í mark og lýsti svo óánægju sinni í viðtölum við fjölmiðla.

Sjá einnig: Bolt örugglega áfram í undanúrslit

„Ég er ekki hrifinn af þessum rásblokkum. Ég verð að ná tökum á þessu,“ sagði hann. „Þær eru ekki nógu traustvekjandi. Þær voru óstöðugar í upphitun. Ég er ekki vanur þessu.“

Bolt á ekki hraðasta tíma ársins en þetta var aðeins fjórða 100 m hlaupið hans í ár. Til þessa hefur hann aðeins einu sinni hlaupið undir tíu sekúndum í ár.

Julian Forte átti besta tíma gærkvöldsins er hann hljóp á 9,99 sekúndum en Bandaríkjamaðurinn umdeildi Justin Gatlin komst einnig örugglega áfram, sem og Yohan Blake.

Hins vegar er Kanadamaðurinn Andre De Grasse, einn besti spretthlaupari heims, frá keppni í Lundúnum vegna meiðsla.

Á Ólympíuleikunum í fyrra, þar sem Bolt varð meistari, vann Gatlin silfur og De Grasse brons. Blake varð fjórði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×