Það voru eflaust margir búnir að afskrifa konuna sem kom þessu sporti almennilega á kortið á Íslandi en hún sýndi það síðustu daga hversu mögnuð íþróttakona hún er.
Annie Mist sagði heiminum frá því hversu miklu máli þessi bronsverðlaun skiptu hana í stuttum pistli á Instagram síðu sinni.
„Átta ár eru liðin, tvenn gullverðlaun, tvenn silfurverðlaun og núna náði ég í mín fimmtu verðlaun. Þessi verðlaun skipta mig gríðarlega miklu máli þar sem þau koma eftir tveggja ára baráttu. Tvö ár af efasemdum, spurningum og sífeldu sjálfsmati,“ skrifaði Annie Mist.
„Tvö ár af því að reyna að hlusta ekki á efasemdaraddirnar. Í kvöld þá eyddi ég öllum þessum efasemdaröddunum,“ skrifaði Annie Mist en hún gerði betur en bæði Katrín Tanja Davíðsdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir sem höfðu báðar verið ofar en hún síðustu ár.
„Sem keppnismanneskja þá reyni ég alltaf að ná fram mínu besta og þegar ég horfi til baka á þessa fjóra daga þá skildi ég allt eftir á gólfinu. Ég leggst á koddann vitandi það að ég gerði allt sem í mínu valdi stóð. Nú er kominn tími til að hvílast, jafna mig og horfa fram til ársins 2018,“ skrifaði Annie Mist en það er hægt að lesa allan pistil hennar hér fyrir neðan.
Annie Mist Þórisdóttir á heimsleikunum í crossfit:
2009 - 11. sæti
2010 - Silfurverðlaun
2011 - Meistari
2012 - Meistari
2013 - Meidd
2014 - Silfurverðlaun
2015 - 38. sæti (Hætti keppni)
2016 - 13. sæti
2017 - Bronsverðlaun
2 gullverðlaun (2011, 2012)
2 silfurverlaun (2010, 2014)
1 bronsverðlaun (2017)