Innlent

Jákvæðni Íslendinga í garð ferðamanna minnkað um 15,9 prósent

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Jákvæðni Íslendinga í garð erlendra gesta hefur minnkað um 15,9 prósent á tveimur árum.
Jákvæðni Íslendinga í garð erlendra gesta hefur minnkað um 15,9 prósent á tveimur árum. Vísir/Anton Brink
64,1 prósent Íslendinga eru jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum samkvæmt nýrri könnun MMR. Jákvæðni Íslendinga í garð erlendra gesta hefur þannig minnkað um 15,9 prósent á tveimur árum.

MMR hefur undanfarin ár mælt viðhorf Íslendinga til erlendra ferðamanna. Töluvert hefur dregið úr jákvæðni í garð erlendra gesta á undanförnum árum. Þannig mældust 67,7% jákvæðir gagnvart ferðamönnum árið 2016 og 80 prósent árið 2015.

Almennt virtist meirihluti Íslendinga jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi en þó mátti sjá mun á viðhorfi eftir samfélagshópum.

Meðal annars voru karlar (70,5%) líklegri en konur (57,5%) til að vera jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum. Þannig sögðust 70,5% karla vera jákvæðir í garð erlendra ferðamanna samanborið við 57,5% kvenna. Fólk sem búsett var á höfuðborgarsvæðinu var einnig jákvæðara en fólk sem búsett var á landsbyggðinni gagnvart erlendum ferðamönnum, en 67,5% þeirra sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu sögðust vera jákvæð gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi, samanborið við 58,0% þeirra sem búsett voru á landsbyggðinni.

Framsóknarfólk neikvæðast

Auk þess kom í ljós að því hærri sem heimilistekjur svarenda voru því jákvæðari voru þeir gagnvart erlendum ferðamönnum á Íslandi. Þannig voru 52,7% svarenda sem höfðu heimilistekjur undir 400 þúsund jákvæðir gagnvart erlendum ferðamönnum, borið saman við 78,2% þeirra sem höfðu milljón eða meira í heimilistekjur.

Þá mátti einnig sjá mun á viðhorfi til erlendra ferðamanna eftir stuðningi við mismunandi stjórnmálaflokka. Þar kom í ljós að stuðningsfólk Samfylkingarinnar var sá hópur sem var hvað jákvæðastur gagnvart erlendum ferðamönnum, eða 89,1%. Á móti var stuðningsfólk Framsóknarflokksins sá hópur sem var minnst jákvæðastur gagnvart erlendum ferðamönnum, eða 47,6%. Jafnframt var stuðningsfólk Framsóknarflokksins líklegasti hópurinn til að vera neikvæður í garð erlendra ferðamanna á Íslandi, eða 22,7%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×