Árni Gils Hjaltason hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að því er fram kemur á vef DV.
Í ákæru héraðssaksóknara á hendur Árna Gils kom fram að hann hefði aðfaranótt sunnudagsins 5. mars síðastliðinn veist að manni á bifreiðarstæði við söluturninn Leifasjoppu við Iðufell í Reykjavík. Eftir stutt átök þeirra á milli hefði hann stungið manninn með hnífi í höfuðið vinstra megin fyrir ofan eyra.
Maðurinn hlaut skurð á höfði og slagæðarblæðingu úr höfuðleðri. Náði áverkinn í gegnum fulla þykkt höfuðkúpunar auk þess sem flísaðist upp úr höfuðkúpunni.
Oddgeir Einarsson, verjandi Árna Gils, segir í samtali við Vísi að dómurinn sé ekki í samræmi við væntingar. Ljóst sé að dómnum verði áfrýjað til Hæstaréttar. Dómurinn hefur ekki verið birtur á vef dómstólanna enn sem komið er.
Innlent