Mikill matarskortur blasir nú við íbúum Norður-Kóreu en verstu þurrkar frá árinu 2001 þjaka nú landið.
Þetta segir í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum en uppskera hefur verið með versta móti og er mikil þörf á matarinnflutningi til landsins, sem er eitt það einangraðasta á jörðinni.
Í skýrslunni segir að börn og gamalmenni séu í mestri hættu á að líða fyrir skortinn en á tíunda áratug síðustu aldar er talið að hundruð þúsunda manna hafi farist úr hungri í landinu þegar mikil hungursneyð gekk þar yfir.
Nú er ástandið grafalvarlegt, ekki síst í ljósi þess að verulega hefur dregið úr matvælasendingum frá öðrum löndum síðustu árin.
