Erlent

Sean Spicer hættir sem fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sean Spicer á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.
Sean Spicer á blaðamannafundi í Hvíta húsinu. Vísir/AFP
Sean Spicer sagði í dag af sér sem fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins en frá þessu er greint á vef New York Times.

Í frétt blaðsins kemur fram að Spicer hafi tjáð Donald Trump, Bandaríkjaforseta, að hann væri verulega ósáttur við skipan Anthony Scaramucci sem samskiptastjóra Hvíta hússins.

Scaramucci var skipaður í embættið klukkan 10 í morgun að staðartíma og óskaði Trump eftir því við Spicer að hann myndi halda áfram í starfi fjölmiðlafulltrúa.

Spicer sagði forsetanum hins vegar að hann teldi að skipan Scaramucci í embætti vera mikil mistök, að því er fram kemur í frétt New York Times.

Fyrr í dag var greint frá því að talsmaður lögfræðiteymis Trump hefði sagt upp störfum. Ástæðan er sögð vera sú að hann sé ósáttur með þá stefnu teymisins að koma óorði á þá sem fara með rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í fyrra.

Skömmu síðar var svo greint frá því að Marc Kasowitz væri hættur störfum sem einkalögmaður Trump.

Það er því ljóst að mikill titringur er á meðal þeirra sem starfað hafa náið með forsetanum í hans stuttu forsetatíð en Trump tók við embætti í janúar síðastliðnum.

Meint tengsl framboðs hans við Rússa og meint afskipti Rússa af forsetakosningunum í fyrra hafa sett mikinn svip á fyrstu sex mánuði Trump í embætti.

Fyrr í þessum mánuði var til að mynda greint frá því að sonur hans, Donald Trump yngri, hefði fundað með rússneskum lögfræðingi í fyrra í von um að fá upplýsingar um Hillary Clinton, mótframbjóðanda föður síns, sem gætu skaðlegar fyrir hana.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×