Innlent

Kosið um sameiningu Sandgerðis og Garðs síðar á árinu

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Kosið verður um sameiningu Sandgerðisbæjar og sveitarfélagsins Garðs í nóvember næstkomandi. Fulltrúar bæjanna segja að efla þurfi stjórnsýslu og þjónustu við íbúa.

Frá því í september á síðasta ári hafa sveitarfélögin rætt sameiningu og vonast er til að kosið verði um það nú í nóvember.

Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Garði, segir að þessi umræða hafi verið viðvarandi ansi lengi. „Bæjarfulltrúar í þessum sveitarfélögum hér ræddu saman fyrir rúmlega ári síðan, um það hvort ætti að fara að skoða þessa sameiningu hér.“

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Sandgerði, segir marga sjá það í svolítið rómantísku ljósi að þessir bæir munu byggjast saman. „Ég sjálfur er ekki alveg að sjá það. Ég held að þetta verði – ef þessi sveitarfélög sameinast – að þetta verði tveir sterkir byggðakjarnar sem munu spila og starfa saman í einu sveitarfélagi.“

Sveitarfélögin eru lík í uppbyggingu og svipað stór. Garður með um fimmtán hundruð íbúa og Sandgerði með sautján hundruð íbúa.

„Að mínu mati snýst þetta fyrst og fremst um stjórnsýsluna, efla hana og auka þjónustu við íbúana,“ segir Magnús.

Til að mynda þurfi að efla póst- og bankaþjónustu og fá heilsugæslu. „Við á Suðurnesjum höfum upplifað einstakan tíma síðustu tvö ár. Mikil fjölgun. Bara í mínu sveitarfélagi, Sandgerði, það var það sveitarfélag þar sem fjölgaði mest á síðasta ári, rúm átta prósent fjölgun íbúa. Við erum að takast á við ýmis vaxtaverkefni sem eru bæði flókin og erfið en líka spennandi. Spennandi tímar til að takast á við. Hvernig ætlum við að veita þjónustu, hvar og svo framvegis,“ segir Ólafur Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×