Viðskipti erlent

Microsoft eyðir Paint

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Já, það fer að styttast í kveðjustund Paint og Windows-notenda.
Já, það fer að styttast í kveðjustund Paint og Windows-notenda. vísir/sunna
Microsoft stefnir að því að eyða forritinu Paint í næstu uppfærslu á stýrikerfinu Windows 10. Paint er án efa góðkunningi margra en það hefur verið hluti af stýrikerfi Windows frá árinu 1985 og er líklegast eitt fyrsta myndvinnsluforritið sem hinn almenni tölvunotandi komst í kynni við.

Í seinustu uppfærslu Windows 10 kynnti Microsoft til sögunnar forritið Paint 3D sem er í stýrikerfinu ásamt upphaflega Paint-forritinu. Paint 3D er með tólum til að vinna þrívíddarmyndir og svo tól til að vinna myndir í tvívídd en forritið er ekki uppfærsla á upphaflega Paint og virkar á annan veg.

Nú hefur Microsoft svo tilkynnt að í næstu uppfærslu stýrikerfisins verði Paint hvergi að finna og heldur ekki Outlook Express, Reader app og Reading list.

Að því er fram kemur á vef Guardian, og notendur Paint kannast eflaust við, þá var forritið ekki hannað fyrir mjög flóknar aðgerðir. Það hefur þó verið til staðar fyrir Windows-notendur lengi, og er til að mynda í tölvum margra vinnustaða. Einhverjir munu því eflaust sakna Paint en þá er bara um að gera og byrja að læra á Paint 3D.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×