Erlent

Donald Trump flutti umdeilt ávarp á skátamóti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði gríðarlegan fjölda skáta í gær.
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði gríðarlegan fjölda skáta í gær. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði skátamót bandarísku skátahreyfingarinnar í Vestur-Virginíu-ríki Bandaríkjanna í gær. Ræða Trump vakti mikla athygli en hann þykir hafa verið nokkuð pólitískur í ávarpi sínu.

Mikill mannfjöldi var viðstaddur skátamótið en um var að ræða þá deild skátahreyfingarinnar sem aðeins er ætluð drengjum.

Breska dagblaðið Guardian tók saman þau ummæli Trump sem báru hæst en hann minntist ítrekað á fjölda þeirra sem samankomnir voru til að hlýða á ávarp hans.

„Og á meðan ég man, hverjar teljið þið líkurnar á því að þessi ótrúlegi, mikli mannfjöldi, við erum að setja met hérna, verði sýndur í sjónvarpinu í kvöld? Eitt prósent eða núll?“ spurði Trump skátana og kenndi þar um svokölluðum „falsfréttaflutningi“, sem forsetanum hefur verið tamt að grípa til.

Þá fullyrti Trump að með ríkisstjórn sína við stjórnvölinn myndu skátarnir aftur fá að óska vegfarendum „gleðilegra jóla“ í aðdraganda hátíðanna og ræddi þar að auki afstöðu sína gagnvart heilbrigðisfrumvarpi fyrrverandi Bandaríkjaforseta, Barack Obama.

Trump varpaði einnig fram spurningunni: „Mætti Obama forseti einhvern tímann á skátamót?“ og uppskar hávært „nei“ frá skátahópnum. Myndband af þessum hluta ræðunnar má sjá í meðfylgjandi tísti hér að neðan en athygli vekur að Obama var sjálfur skáti þegar hann var ungur. Það var Trump hins vegar ekki.

Forsetinn minntist einnig á fyrrum andstæðing sinn, Hillary Clinton, og tjáði skátunum að Clinton hefði hreinlega ekki lagt nógu hart að sér við kosningabaráttu í þeim ríkjum sem Repúblikanar náðu óvænt meirihluta í.

Ávarp Trump á skátamótinu í gær má hlusta á í heild sinni hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×