Erlent

Vilja betrumbæta eldflaugavarnir þrátt fyrir mótmæli Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Eldflaugaskot Norður-Kóreu í dag var í annað sinn sem þeir skjóta langdrægri eldflaug á loft.
Eldflaugaskot Norður-Kóreu í dag var í annað sinn sem þeir skjóta langdrægri eldflaug á loft. Vísir/EPA
Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, skipaði embættismönnum sínum að ræða við Bandaríkin um að koma upp fleiri THAAD-eldflaugavarnarkerfum fyrir í landinu. Það gerði hann eftir enn eina eldflaugatilraun Norður-Kóreu. Kínverjar hafa ítrekað mótmæli sín við því að slíkum vörnum sé komið fyrir á svæðinu.

Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu tilkynntu í júlí í fyrra að til stæði að koma slíku kerfi fyrir til að verjast gegn mögulegum eldflaugaárásum Norður-Kóreu. Yfirlýst markmið stjórnvalda Kim Jong-un er að þróa kjarnorkuvopn sem hægt væri að skjóta að meginlandi Bandaríkjanna.

Vísir/GraphicNews
THAAD-kerfið er hannað til þess að skjóta niður eldflaugar. Kínverjar segja varnarkerfið ógna öryggi þeirra, þar sem það gæti mögulega verið notað til þess að skjóta niður eldflaugar frá Kína.



Moon tilkynnti einnig í dag að hann vilji að Sameinuðu þjóðirnar herði enn fremur refsiaðgerðir sínar gegn Norður-Kóreu og tilrauna þeirra.

Eldflaugaskot Norður-Kóreu í dag var í annað sinn sem þeir skjóta langdrægri eldflaug á loft. Sérfræðingar sem AP fréttaveitan ræddi við segja að niðurstöður tilraunarinnar gefi í skyn að þeir gætu skotið á stóran hluta Bandaríkjanna.

Bandarísk hernaðaryfirvöld luku á dögunum greiningu á getu Norður-Kóreu. Niðurstaðan var sú að framþróun þeirra væri hraðari en áður hefur verið talið og að Norður-Kórea gæti mögulega skotið áreiðanlegum og langdrægum eldflaugum vopnuðum kjarnorkuvopnum á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×