Erlent

Gæti tekið mánuði að bera kennsl á líkin

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Leit og rannsókn mun líklega ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi í nóvember.
Leit og rannsókn mun líklega ekki ljúka fyrr en í fyrsta lagi í nóvember. vísir/epa
Búist er við að það muni taka að minnsta kosti fjóra mánuði að finna og bera kennsl á þá sem létust í brunanum í Grenfell-turni í London í síðasta mánuði. Alls var 73 saknað eftir brunann, þar af á eftir bera kennsl á 41.

Sérhæft teymi bresku lögreglunnar vinnur baki brotnu að því að leita að fólki í rústunum, en þó eru taldar eru hverfandi líkur á að hægt verði að bera kennsl á alla.

Alistair Hutchins, sem fer fyrir rannsókn málsins fyrir hönd lögreglunnar, hefur biðlað til fjölskyldna fórnarlambanna að sýna þolinmæði, en fjórar vikur eru frá brunanum mikla.

Haft er eftir Hutchins á vef Sky News að tólf lögreglumenn, sem sérhæfi sig í að bera kennsl á fólk eftir hamfarir, vinni nú í byggingunni, auk tólf leitarsérfræðinga og sex fornleifafræðinga. Þeim er skipt í fjóra til sex hópa og vinnur hver hópur í um þrjár klukkustundir í senn. Um er að ræða 24 hæða byggingu. Hóparnir spreyja á veggina til þess að átta sig á hvaða svæði búið er að kemba en byggingin er nú rústir einar.

Aðstandendur fórnarlambanna hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir seinagang við leitina. Hutchins segist á vef Guardian skilja vonbrigði fólksins en fullyrðir að reynt verði að ljúka rannsókn hið allra fyrsta.

„Ég skil vonbrigði fjölskyldnanna mjög, mjög vel, og það er eðlilegt að þau vilji fá svör. En það eina sem ég get sagt að svo stöddu er verið þolinmóð,“ segir Hutchins. „Við erum að gera okkar allra besta og vinnum eins hörðum höndum og við getum.“






Tengdar fréttir

Fjöldi háhýsa standast ekki eldvarnarpróf

Þingmaður Verkamannaflokksins, John McDonnell, sagði í gær að íbúar Grenfell turnsins hefðu verið "myrt“ með ákvörðunum stjórnmálamanna á síðustu áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×