Það var létt yfir Argentínumanninum Santiago Ponzinibbio á fjölmiðladeginum í Glasgow í gær. Hann brosti, var kurteis og bauð af sér góðan þokka.
„Það er æðislegt að vera hérna. Mjög fallegt. Í gær fór ég að skoða Edinborg og bara vá, maður,“ sagði Argentínumaðurinn heillaður en hann er að koma til Evrópu í fyrsta skipti á ævinni. Hann ætlar að vera hérna áfram fram í miðja næstu viku.
„Ég er þakklátur fyrir þetta tækifæri sem ég fæ hérna og mér líður vel. Ég er búinn að vinna fjóra bardaga í röð og er meira en tilbúinn. Ég hef beðið eftir þessu tækifæri. Þetta verður erfiður bardagi enda Gunnar einn af þeim bestu í heiminum. Ég tel mig aftur á móti vera besta bardagamann heims. Hér er ég kominn í réttan styrkleika og er alltaf tilbúinn í stríð.“
