Innlent

Ekki ráðlegt að fara í sjósund í Nauthólsvík vegna saurgerlamengunar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjósundkappar í Nauthólsvík eru beðnir um að halda sig á þurru landi í dag.
Sjósundkappar í Nauthólsvík eru beðnir um að halda sig á þurru landi í dag. Vísir/Anton Brink
Há gerlatala í Nauthólsvík vekur athygli í bráðabirgðaniðurstöðum úr sýnatöku Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í gær. Niðurstöðurnar eru þó að öðru leyti í samræmi við niðurstöður undanfarinna daga. Þetta segir í frétt á vef Reykjavíkurborgar.

Allar líkur eru á að um sé að ræða einstakt tilfelli en Heilbrigðiseftirlitið getur þó ekki mælt með sjósundi í dag og biður fólk um að fylgjast með frekari niðurstöðum sem verða birtar á heimasíðu Reykjavíkurborgar.

Heilbrigðiseftirlitið fylgist nú grannt með saurgerlamengun við strandlengjuna vegna bilunar sem varð í skólpdælustöð við Faxaskjól í Vesturbæ Reykjavíkur í júní síðastliðnum. Enn hefur ekki verið komið í veg fyrir bilunina.

Þá segir í fréttinni að einungis sé um eitt sýni frá því í gær að ræða. Sýnataka var endurtekin í dag en niðurstöður úr henni verða birtar á morgun, 15. júlí, eða um leið og þær berast. Þessar nýjustu niðurstöður eru frábrugðnar þeim niðurstöðum sem borist hafa en náið verður fylgst með þróun á svæðinu.

Niðurstöður fyrir Nauthaulsvík nú eru ekki í samræmi við aðrar niðurstöður frá sýnatökustöðum í nágrenninnu en í Nauthólsvík mældust um 1000 saurkólígerlar í 100 millílítrum. Bent er á að gerlafjöldi á sýnatökustað við enda flugbrautar er 1/100 ml.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×