Innlent

Verulega dregur úr saurgerlamengun í Nauthólsvík

Kjartan Kjartansson skrifar
Grannt hefur verið fylgst með mengun í Nauthólsvík eftir bilun í skólpdæustöð í júní.
Grannt hefur verið fylgst með mengun í Nauthólsvík eftir bilun í skólpdæustöð í júní. Vísir/Eyþór
Mælingar við Nauthólsvík sýna verulega lækkun saurkólígerlamengunar og eru gildi nú undir viðmiðunarmörkum. Samkvæmt tilkynningu frá Reykjavíkurborg eru gildi saurgerla í lóni við Ylströndina vel innan marka sem sett eru um baðstaði í náttúrunni.

Varað var við sjósundi í Nauthólsvík í gær vegna hárrar saurgerlatölu í bráðabrigðaniðurstöðum úr sýntatöku Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Fylgst hefur verið grannt með mengun í víkinni vegna bilunar sem varð í skólpdælustöð við Faxaskjól í júní.

Gildin enn hærri en venjulega

Þó að gildin hafi lækkað eru þau engu að síður enn hærri en venjulegt er í Nauthólsvík. Mælingarnar í Nauthólsvík fóru úr 1100/100 í fyrradag í 99/100 saurkólígerla í sýni sem var tekið í gær.

Í kjölfar niðurstaðna þótti ástæða til að taka sýni í lóni Ylstrandarinnar. Sýni í miðju lóninu sýndu 2/100 saurkólígerla í 100 ml. og er það vel undir mörkum gilda sem sett eru um baðstaði í náttúrunni.

Í tilkynningunni segir ennfremur að verið sé að kanna uppsprettu mengunar í Nauthólsvík. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur muni vakta Nauthólsvíkina daglega auk þess að fylgjast með strandlengjunni við Faxaskjól, Ægissíðu og Skeljanes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×