Erlent

„Síðasta tækifæri“ Norður-Kóreu

Samúel Karl Ólason skrifar
Moon Jea-in, forseti Suður-Kóreu.
Moon Jea-in, forseti Suður-Kóreu. Vísir/AFP
Forseti Suður-Kóreu, Moon Jea-in, segir viðræður við Norður-Kóreu aldrei hafa verið mikilvægari. Hann sagði ákvörðun nágranna sinna að gera tilraun með langdræga eldflaug hafa valdið honum vonbrigðum og hún hefði verið röng. Norður-Kórea hefði eitt tækifæri til að taka rétta ákvörðun.

„Við viljum ekki fella Norður-Kóreu og við erum ekki að sækjast eftir nokkurs konar sameiningu með innlimun. Við munum ekki sækjast eftir sameiningu með valdi,“ sagði Moon, samkvæmt Reuters fréttaveitunni.

Tilbúinn til funda

Forsetinn sagði einnig að hann væri tilbúinn til að funda með leiðtogum Norður-Kóreu, ef ákveðnum skilyrðum yrði náð og dregið yrði úr spennu á svæðinu. Nauðsynlegt væri að eyða öllum kjarnorkuvopnum á KóreuskagaMoon sagði það vera kröfu alþjóðasamfélagsins og grundvallarforsenda þess að tryggja frið.

„Það þýðir að ákvörðunin að eyða kjarnorkuvopnum sínum er eina leiðin til að tryggja öryggi Norður-Kóreu. Því ítreka ég að núna er síðasta og besta tækifæri Norður-Kóreu til að breyta rétt.“

Annars myndi Norður-Kóreu mæta frekari þvingunum og auknum þrýstingi.

Vill auka samstarf

Moon hélt ræðu í dag þar sem hann er staddur í Berlín. Þar fór hann yfir fimm atriða stefnu sína varðandi Norður-Kóreu. Fyrsta stefnan væri eingöngu að sækjast eftir friði og sú önnur væri að losa Kóreuskagann við kjarnorkuvopn, án þess að fella ríkisstjórn Norður-Kóreu.

Þar að auki vill Moon meðal annars auka samstarf ríkjanna varðandi efnahagsmál og mannúðarstörf, viðhalda samskiptum og leyfa aðskildum fjölskyldum að hittast aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×