Innlent

Útlit fyrir lögbrot í skólpmálinu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Útlit er fyrir að lög um upplýsingarétt um umhverfismál hafi verið brotin þegar ákveðið var að upplýsa almenning ekki um bilun í neyðarloku í dælustöð Veitna ohf. við Faxaflóa sem olli saurmengun meðfram strandlengju í Vesturbæ Reykjavíkur. Um 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi flæddu út í hafið á hverri sekúndu við Faxaskjól í Reykjavík í 10 sólarhringa áður en greint var frá biluninni í fjölmiðlum.

Í 10. grein laga um upplýsingarétt um umhverfismál segir að stjórnvöldum sé ævinlega skylt að hafa frumkvæði að upplýsingagjöf sé ástæða til að ætla að frávik vegna mengandi efna í umhverfi geti haft í för með sér hættu eða skaðleg áhrif á umhverfi eða heilsu fólks eða dýra. Lagaákvæðið er orðað með þeim hætti að stjórnvöld hafa ekki val um að upplýsa almenning að fyrra bragði um skaðlega mengun.

Ekki náðist í forsvarsmenn Veitna ehf við vinnslu fréttarinnar til að svara fyrir meint lögbrot.

Um er að ræða alvarlegustu og lengstu bilun sem orðið hefur á skólphreinsikerfinu frá upphafi. Allt að 750 lítrar af óhreinsuðu skólpi hafa runnið í sjóinn á hverri sekúndu frá því að bilunin gerði vart við sig þann 26. júní síðastliðinn.

Í tilkynningu frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá því í morgun segir að engin hætta sé á því að saurgerlamengun berist í Nauthólsvík þegar neyðarlúgur eru opnar í fráveitudælustöðinni í Faxaskjóli.

Heilbrigðiseftirlitið tók sýni í sjónum þann 6. júlí og skv. staðfestum niðurstöðum frá Mæliþjónustu Matís ohf. voru saurgerlar 1/100 ml. Heilbrigðiseftirlitið tók einnig sýni þann 7. júlí sl. og bráðabirgðaniðurstaða úr því er sú sama.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×