Erlent

Facebook eflir eftirlit með skilaboðum öfgamanna í kjölfar árásanna í Bretlandi

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Facebook lætur sitt ekki eftir liggja í baráttunni gegn hryðjuverkum.
Facebook lætur sitt ekki eftir liggja í baráttunni gegn hryðjuverkum. Vísir/Getty
Facebook hefur sett á laggirnar sérstakt verkefni sem er ætlað að þjálfa og fjármagna samtök til að berjast gegn skilaboðum öfgahópa á netinu. Verkefnið kemur í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bretlandi en titill verkefnisins er Hugrekki almennings á netinu. Reuters greinir frá.

Stefnt er að því að þjálfa samtök til að aðstoða við að hafa auga með og bregðast við skilaboðum öfgamanna. Jafnframt verður stofnað þjónustuborð sem gerir fólki kleift að komast beint í samband við starfsfólk Facebook.

Facebook hefur meðal annars ráðið til sín sérfræðinga í öryggi og með mikla reynslu í baráttunni gegn hryðjuverkum. Undanfarið hafa internetfyrirtæki reynt að hafa hemil á hatursorðræðu og ofbeldisfullu efni innan þeirra miðla.

Bresk yfirvöld hafa í kjölfar árásanna gagnrýnt internetfyrirtæki og samfélagsmiðla og sagt þá spila stórt hlutverk í þessu ástandi. Þar hafi áróður öfgamanna fengið sitt rými til að blómstra. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur meðal annars hvatt stjórnendur Evrópusambandsins til að beita þrýstingi til að fá breytingar í gegn.

Facebook er ekki eina fyrirtækið sem hefur tekið ábendingarnar til sín en Google og Twitter hafa einnig gefið út þá yfirlýsingu að þeir hafi endurskoðað sína ferla og aukið við starfskraft sinn með það fyrir augum að fylgjast vel með málum. Öryggissérfræðingar segja að þetta átak sé strax farið að hafa áhrif en þó sé enn langt í land.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×