Ragnar Sigurðsson og Kolbeinn Sigþórsson skoruðu mörk Íslands eftir að Wayne Rooney hafði komið Englendingum yfir með marki úr vítaspyrnu á 4. mínútu.
Kolbeinn skoraði sigurmark leiksins strax á 18. mínútu en íslenska liðið náði að halda sínu striki til loka. Fögnuðurinn eftir leik gleymist seint, bæði hjá leikmönnum og stuðningsmönnum.
Lars Lagerbäck var ásamt Heimi Hallgrímssyni landsliðsþjálfari Íslands og hann var í viðtali á síðunni The Set Pieces í tilefni af því að ár er liðið frá leiknum, sem Englendingar upplifa sem eina mestu niðurlægingu í sinni knattspyrnusögu.
„Það er takmarkað hvaða áhrif þjálfarinn getur haft á leikinn en í hálfleik sagði ég við leikmenn að við ættum að halda áfram að spila okkar leik,“ sagði Lagerbäck í viðtalinu.

Lagerbäck sagði enn fremur að þetta hefði ekki snúist um að stöðva einhvern ákveðinn leikmann í liði Englands og að styrkleiki Íslands væri skipulagið.
„Fótbolti er liðsíþrótt og við höguðum okkur eins og lið. Þegar Ísland komst yfir byrjuðu Englendingar að örvænta. Þeir sköpuðu sér einhver færi en við stjórnuðum leiknum í síðari hálfleik.“
Hann talar hlýlega um tíma sinn sem landsliðsþjálfari Íslands í viðtalinu, sem og land og þjóð. Árangurinn sem Ísland náði undir hans stjórn var ótrúlegur og fór meira að segja fram úr hans eigin væntingum.
„Ef þú hefðir spurt mig árið 2011 hvort við mynum komast í 8-liða úrslit á EM, þá hefði ég sagt að það væri óraunhæft.“
Viðtalið allt má lesa hér.