Erlent

Meintir ISIS-liðar handteknir á Spáni, Bretlandi og Þýskalandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Handtökunum var stýrt af spænsku lögreglunni, en fjórir voru handteknir í Palme de Mallorca, einn var handtekinn í Bretlandi og einn í Þýskalandi.
Handtökunum var stýrt af spænsku lögreglunni, en fjórir voru handteknir í Palme de Mallorca, einn var handtekinn í Bretlandi og einn í Þýskalandi. Vísir/AFP
Sex meintir meðlimir Íslamska ríkisins hafa verið handteknir á Spáni, í Bretlandi og í Þýskalandi. Þeir eru sakaðir um að dreifa áróðri og hafa reynt að útvega hryðjuverkasamtökunum nýja meðlimi. Handtökunum var stýrt af spænsku lögreglunni, en fjórir voru handteknir í Palme de Mallorca, einn var handtekinn í Bretlandi og einn í Þýskalandi.

Samkvæmt tilkynningu frá Innanríkisráðuneyti Spánar eru mennirnir grunaðir um að hafa búið til ofbeldisfull áróðursmyndbönd og dreift þeim. Þar að auki skipulögðu þeir leynilega fundi þar sem þeir reyndu að fá ungt fólk til þess að ganga til liðs við ISIS og fara til Sýrlands og Írak og berjast fyrir samtökin.

Reuters fréttaveitan segir rannsókn lögreglu hafa hafist árið 2015 eftir að heimasíða með áðurnefndum myndböndum fannst. Framleiðandi myndbandanna er klerkur sem handtekinn var í Bretlandi, en hann var þegar undir eftirliti nokkurra þjóða. Hann hafði nýverið ferðast til Mallorca og hitt þá fjóra menn sem voru handteknir þar.

Sá sem handtekinn var í Þýskalandi hafði einnig átt í samskiptum við mennina fjóra og hafði tekið þátt í framleiðslu áróðursmyndbandanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×