Erlent

Sipilä: Engar forsendur fyrir áframhaldandi samstarf við Sanna Finna

Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands.
Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands. Vísir/AFP
Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, segir engar forsendur vera fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi með Sönnum Finnum undir stjórn Evrópuþingmannsins Jussi Halla-aho. Sipilä greindi frá þessu á Twitter-síðu sinni fyrir stundu.

Miðflokkur Sipilä, Þjóðarbandalagið og Sannir Finnar hafa starfað saman í ríkisstjórn síðastliðin tvö ár. Halla-aho var kjörinn nýr formaður Sannra Finna um helgina en hann þykir mun harðari í andstöðu sinni gegn innflytjendum en forveri hans í formannsstól, utanríkisráðherrann Timo Soini.

Formenn stjórnarflokkanna komu saman til neyðarfundar á heimili forsætisráðherrans í morgun, en þingmenn Miðflokksins og Þjóðarbandalagsins munu koma saman til þingflokksfundar síðar í dag til að ræða stöðuna sem upp er komin.

Fjármálaráðherrann og formaður Þjóðarbandalagsins, Petteri Orpo, hefur tekið í svipaðan streng og forsætisráðherrann og segir Sanna Finna ekki lengur vera sama flokk og fyrir tveimur árum, nú þegar Halla-aho hefur tekið við formennsku.

Finnskir fjölmiðlar segja að leiðtogar í stjórnarandstöðunni vilji að boðað verði til þingkosninga, en þá er einnig hugsanlegt að Sænski þjóðarflokkurinn og Kristilegir demókratar taki sæti Sannra Finna í ríkisstjórn.

Sipilä hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14 að íslenskum tíma.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×