Erlent

Lýsir ástandinu í Grenfell-turni eins og einhverju úr hryllingsmynd

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Íbúi í Grenfell-turni greinir frá sinni upplifun af eldsvoðanum í Lundúnum.
Íbúi í Grenfell-turni greinir frá sinni upplifun af eldsvoðanum í Lundúnum.
Sjónarvottar lýstu því sem fyrir augum bar, þegar Grenfell-turninn í Lundúnum stóð í ljósum logum, fyrir breskum fjölmiðlum í dag.

Íbúi turnsins, Mickey, segist hafa verið í svefnrofunum þegar hann fann skyndilega lykt af brenndu plasti. Lyktin hafi vakið með honum grunsemdir sem urðu honum, kærustu hans og barni til lífs því hún varð til þess að hann fór á fætur.

Hann gekk fram í stofu og leitaði eftir skemmdum á innstungum og fann ekkert. Það var ekki fyrr en hann leit út um gluggann sem hann heyrði ópin í fólkinu fyrir utan og í kjölfarið leit hann út um op á útidyrahurðinni og sá að eldur hafði borist inn um stigaganginn. Hann sótti kærustu sína og barn í flýti og kom þeim út úr turninum. Þegar út var komið sá hann hversu slæmt ástandið virkilega var og lýsti Mickey upplifuninni eins og „einhverju úr hryllingsmynd“.

Eldsvoðinn í Grenfell-turni í Lundúnum.Vísir/getty
Báðu vegfarendur um að grípa börnin sín

Tamara býr í námunda við hverfið. Hún og bróðir hennar fylgdust skelfingu lostin af götunni með þróun eldsins. Hún lýsti því fyrir breskum fjölmiðlum hvernig þau fylgdust með fólki hrópa út um gluggana eftir hjálp og sáu eldinn í kjölfarið ná til þeirra. Tamara minnist neyðarópa fólksins sem sárbændu vegfarendur að grípa börn sín.

Samira, vinkona hennar, sem einnig var vitni að því þegar Grenfell-turninn varð alelda, segir að eldurinn hafi breiðst út á ofsahraða. Fyrst um sinn hafi hún tekið eftir eldinum þegar fjórar hæðir stóðu í ljósum logum en að ekki hafi liðið á löngu fyrr en turninn hafi verið alelda. Hún segist hafa séð fólk bæði steypast fram af svölum og gluggum íbúða sinna.

Fjölskylduvinur Tamöru var um hríð fastur inni í byggingunni en hann var á meðal þeirra heppnu sem komust lífs af úr byggingunni.

Að minnsta kosti tólf hafa látist í eldsvoðanum í Grenfell-turni í Norður Kensington.


Tengdar fréttir

Helgi hlúði að slösuðum í nótt

Helgi Jóhannsson, svæfingarlæknir á St. Mary's-sjúkrahúsinu, var ræstur út í nótt til að hlúa að íbúum Grenfell Tower sem brann í nótt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×