Erlent

Breskur þingmaður óttast að hundruð hafi látist í brunanum

Atli Ísleifsson skrifar
David Lammy segir að margar þeirra íbúðabygginga sem reistar voru á áttunda áratugnum eigi að vera rifnar vegna ástands þeirra og slæmra brunavarna.
David Lammy segir að margar þeirra íbúðabygginga sem reistar voru á áttunda áratugnum eigi að vera rifnar vegna ástands þeirra og slæmra brunavarna.
David Lammy, þingmaður breska Verkamannaflokksins og fyrrverandi ráðherra, segist óttast að hundruð manna hafi látið lífið í brunanum í Grenfell-turninum í London aðfaranótt gærdagsins. Hann segir það sem gerðist jafnist á við manndráp af hendi fyrirtækja.

Staðfest var í morgun að sautján manns hafi látið lífið í brunanum þó að fastlega sé búist við að sú tala komi til með að hækka. Alls voru 120 íbúðir í Grenfell-turninum og er áætlað að milli 400 og 600 manns hafi búið í húsinu.

Talsmaður Lundúnalögreglunnar sagðist í morgun ekki geta gefið upp um fjölda þeirra sem sé saknað.

Fjölskylduvinar saknað

Lammy segir að náin vinkona fjölskyldunnar, Khadija Saye, og móður hennar sé enn saknað eftir brunann. Hin 24 ára Saye starfaði hjá eiginkonu Lammy en þær eru báðar listakonur.

Lammy lýsir Saye sem „fallegri ungri konu með frábæran starfsferil framundan“. Hann segir að ekkert hafi heyrst frá Saye eftir brunann og að eftir því sem sekúndurnar líða verði þau sífellt svartsýnni.

Hann sagðist vona að hún væri á sjúkrahúsi og „hafi ekki farist í byggingunni, líkt hundruðir annarra, eins og mig grunar að þau hafi gert þegar upp verður staðið,“ segir Lammy.

Manndráp af hendi fyrirtækja

Þingmaðurinn sagði jafnframt að sú staðreynd að þeir sem bjuggu í turninum hafi margir verið fátækir hafi meðal annars stuðlað að því hvernig fór.

„Þetta er ríkasta hverfið í landinu okkar þar sem komið er fram við borgarana á þennan hátt og við eigum að segja hlutina eins og þeir eru. Þetta er manndráp af hendi fyrirtækja. Það er það sem þetta er. Og í raun eiga menn að verða handteknir. Þetta er hneyksli,“ segir Lammy.

Hann segir að margar þeirra íbúðabygginga sem reistar voru á áttunda áratugnum eigi að vera rifnar vegna ástands þeirra og slæmra brunavarna. Það sem gerðist sé fullkomlega óásættanlegt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×