Erlent

Munu hugsanlega ekki geta borið kennsl á alla þá sem létust í eldsvoðanum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Grenfell-turninn er gjörónýtur. Lögreglan telur afar ólíklegt að einhver finnist þar á lífi.
Grenfell-turninn er gjörónýtur. Lögreglan telur afar ólíklegt að einhver finnist þar á lífi. vísir/getty
Lögreglan í Lundúnum hefur gefið það út að hún muni mögulega ekki geta borið kennsl á alla þá sem létust í eldsvoðanum í Grenfell Tower í vesturhluta borgarinnar aðfaranótt miðvikudags.

Búið er að bera kennsl á sex þeirra sem létust. Lögreglan hefur ekki viljað gefa upp hversu margra er saknað en 120 íbúðir voru í turninum og er talið að á milli 400 og 600 manns hafi búið þar. Alls voru 75 fluttir særðir á sjúkrahús og slökkviliðið bjargaði 65 manns úr brennandi turninum. Aðrir komust út að sjálfsdáðum en ólíklegt er talið að nú finnist einhver á lífi í rústum hússins.

Staðfest er að sautján manns hafi látist og þrjátíu liggja enn særðir á sjúkrahúsi, þar af eru fimmtán taldir vera í lífshættu. Theresa May, forsætisráðherra, hefur fyrirskipað opinbera rannsókn á brunanum og þá hefur Alok Sharma, húsnæðismálaráðherra, sagt að ríkisstjórnin vinni nú að því ásamt borgaryfirvöldum að allar fjölskyldurnar sem bjuggu í turninum fái nýtt húsnæði í sama hverfi.

Eldsupptök eru ókunn en margir telja að brunavarnir í turninum hafi verið ófullnægjandi og ný klæðning sem sett var á húsið fyrir ekki svo löngu síðan hafi jafnvel verið ástæða þess hversu hratt eldurinn breiddist út.

Fjölda fólks er enn saknað og hafa ættingjar og vinir deilt myndum og upplýsingum á samfélagsmiðlum en BBC fjallaði um nokkra þeirra sem er saknað fyrr í kvöld.


Tengdar fréttir

Leituðu í brunarústunum í alla nótt

Slökkiliðsmenn hafa unnið í alla nótt í brunarústum Grenfell turnsins Kensington í Lundúnum sem brann til kaldra kola í gærnótt. Enn logar í glóðum hér og þar í húsinu en björgunarfólk leitaði að manneskjum í húsinu í nótt og er nú staðfest að tólf hafi látist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×