Íslenski boltinn

Sandra María komin í EM-form | Cloé kafsigldi Árbæinga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sandra María skoraði þrennu og lagði upp eitt mark til viðbótar.
Sandra María skoraði þrennu og lagði upp eitt mark til viðbótar. vísir/stefán
Sandra María Jessen og Cloé Lacasse fóru hamförum þegar Þór/KA og ÍBV unnu stórsigra í fyrstu leikjum kvöldsins í Pepsi-deild kvenna.

Sandra María er greinilega staðráðinn í að komast í íslenska landsliðshópinn sem fer á EM sem hefst eftir nákvæmlega mánuð.

Sandra María skoraði þrennu í 5-0 sigri Þórs/KA á Grindavík á Þórsvelli í kvöld.

Norðanstúlkur hafa unnið alla átta leiki sína í Pepsi-deildinni með markatölunni 21-3. Grindavík hefur hins vegar tapað fimm leikjum í röð með markatölunni 3-21.

Sandra María byrjaði á því að leggja upp mark fyrir nöfnu sína, Söndru Stephany Mayor Gutierrez, á 11. mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði Sandra María sjálf og hún bætti svo sínu öðru marki við tveimur mínútum fyrir hálfleik.

Á 84. mínútu fullkomnaði Sandra María þrennuna þegar hún skoraði eftir sendingu frá borgarstjóranum Mayor. Mínútu fyrir leikslok varð Linda Eshun svo fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark og lokatölur því 5-0, Þór/KA í vil.

ÍBV vann Fylki með sömu markatölu í Árbænum.

Fylkiskonur réðu nákvæmlega ekki neitt við Cloé Lacasse sem skoraði fernu í leiknum. Kristín Erna Sigurlásdóttir var einnig á skotskónum í öðrum leiknum í röð.

Cloé og Kristín Erna hafa borið sóknarleik ÍBV uppi í sumar en þær hafa samtals skorað 11 af 15 mörkum liðsins í Pepsi-deildinni.

Eyjakonur, sem hafa unnið fjóra af síðustu fimm leikjum sínum, eru í 4. sæti deildarinnar.

Fylkir er hins vegar áfram með fjögur stig í níunda og næstneðsta sætinu.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×