Erlent

Einn látinn og átta slasaðir í London

Gunnar Reynir Valþórsson og Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifa
Frá vettvangi árásarinnar í gær.
Frá vettvangi árásarinnar í gær. Vísir/EPA
Einn er látinn og átta slasaðir eftir að maður ók sendiferðabíl inn í hóp fólks fyrir utan mosku í norðurhluta Lundúna um miðnætti í gær.

Fjöríutíu og átta ára gamall maður hefur verið handtekinn og samkvæmt vitnum að atburðinum réðust almennir borgarar gegn manninum og yfirbuguðu hann þegar hann reyndi að flýja á hlaupum. Hinn handtekni var fluttur á sjúkrahús þar sem hugsanlegt er að hann hafi slasast. Þá mun hann undirgangast mat geðlæknis.

Hann er sagður hafa öskrað ókvæðisorð um múslíma og sagðist vilja drepa þá. Theresa May, forsætisráðherra, segir að lögregla rannsaki nú málið sem mögulegt hryðjuverk.

Á blaðamannafundi lögreglunnar nú í morgunsárið kom fram að enginn annar hefði verið í sendiferðabílnum ásamt hinum handtekna. Þá kom jafnframt fram að árásin bæri þess öll merki að um hryðjuverk væri að ræða.

Flestir hinna særðu voru að koma frá kvöldbænum í Finsbury Park-moskunni. Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna, segir að lögregla verði með aukinn viðbúnað í hverfum þar sem mikið er um múslima á næstu dögum.

Ráð múslima í Bretlandi hefur sagt að árásin hafi verið innblásin af hræðslu við íslam. Þá hafa forsvarsmenn moskunnar við Finsbury Park kallað eftir því að fólk haldi ró sinni.

Uppfært klukkan 07:36.

Fylgjast má með beinni útsendingu Sky News í spilaranum hér fyrir neðan og lesa yfirlýsingu lögreglunnar þar fyrir neðan.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×