Eddie Jordan, fyrrum eigandi Jordan liðsins í Formúlu 1 og nú sérfræðingur Channel 4 í Formúlu 1 hleypti orðrómnum af stað. Hann sagði í samtali við þýska fjölmiðla að Mercedes myndi hverfa aftur til hlutverks vélaframleiðanda eftir tímabilið 2018.

Wolff hefur hins vegar sagt hugmyndir Jordan byggðar á sandi. Wolff benti á að liðið hefur samið um viðveru sína í Formúlu 1 út árið 2020.
„Þessar sögusagnir eru ekki byggðar á staðreyndum og sýna ekkert meira en skaðlegar ágiskanir eins manns,“ sagði Wolff.
„Mónakó er staður þar sem fólki finnst gaman að djamma, svo virðist sem einhver hafi gert aðeins of mikið af því,“ sagði Wolff einnig og vísar til orðrómsins en Jordan segist hafa talað við Zetsche í Mónakó.
„Mercedes er samningsbundið til þátttöku í Formúlu 1 út árið 2020 og stendur eins og er í viðræðum við nýja eigendur um næstu skref eftir að því tímabili lýkur,“ bætti Wolff við.