Vísbendingar eru um að ákvörðun arabaríkja um að slíta stjórnmálasambandi við Katar hafi nú þegar haft skaðleg efnahags- og félagsleg áhrif á landið. Business Insider greinir frá því að að á síðustu dögum hafi áhyggjuástand myndast í nokkrum atvinnugreinum, meðal annars í vöruflutningum, matvælum, hjá flugfélögum og á fjármálamarkaði.
Sádi-Arabía, Egyptaland, Barein, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Jemen ákváðu á dögunum að slíta stjórnmálasambandi við Katar og sökuðu ríkin yfirvöld þar í landi um að styðja við hryðjuverkahópa. Nú hafa sjö ríki slitið stjórnmálasambandi við Katar.
Mikill innflutningur er á matvælum frá Sádi-Arabíu til Katars og hafa íbúar í Katar lýst yfir áhyggjum af því að landið gæti orðið uppiskroppa með mat vegna ákvörðunarinnar.
Einnig verður erfitt að flytja út vörur frá Katar, verið er að skoða nýjar leiðir til þess sem getur hægt á útflutningi og verið gríðarlega kostnaðarsamt.
Líklega mun ákvörðunin einnig hafa áhrif á flugflota landsins þar sem lofthelgi landsins er frekar lítil og þurfa flugfélög að fljúga um flughelgi Barein, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Katarar neita ásökununum og kallar utanríkisráðherra landsins, Mohammed Bin Abdulrahman al-Thani, eftir viðræðum við nágrannaríkin.

