Fótbolti

Bale ólmur í að spila í heimalandinu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Bale bregður á leik með Luka Modric og Cristiano Ronaldo.
Bale bregður á leik með Luka Modric og Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Gareth Bale heldur í vonina um að hann geti spilað með liði sínu, Real Madrid, gegn Juventus í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á laugardagskvöldið.

Bale hefur ekki spilað með Real síðan hann meiddist á kálfa í leik gegn Barcelona þann 23. apríl síðastliðinn.

Isco hefur nýtt tækifærið vel í fjarveru Bale og Zinedine Zidane, stjóri Real, þarf nú að velja á milli þeirra fyrir stórleikinn á laugardag. Hann fer fram í Cardiff í Wales, heimalandi Bale.

„Það er eðlilegt að það sé rætt um þessi mál. Báðir eru mikilvægir leikmenn og allir mega hafa sína skoðun. En ég læt engan hafa áhrif á mig,“ sagði Zidane á blaðamannafundi í dag.

„Það sem mestu máli skiptir er að allir séu klárir í slaginn og tilbúinir í þennan leik. Ég þarf ekkert að segja við Gareth, hann er tilbúinn og ólmur í að fá að spila þennan leik vegna þess að hann er í hans heimalandi.“

Meiðsli Bale hafa gert það að verkum að hann hefur verið í byrjunarliði Real Madrid alls 24 sinnum á þessu tímabili í öllum keppnum. Hann hefur ekki komið við sögu í færri leikjum yfir heilt tímabil síðan hann kom frá Tottenham árið 2013.

Hann hefur þó reynst Real Madrid afar mikilvægur í úrslitaleikjum og skorað í tveimur þeirra auk þess sem að hann lagði upp mark í þeim þriðja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×