Íslenski boltinn

Máni: Menn geta troðið öllum fundargerðum þangað sem sólin skín ekki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þór/KA hefur átt frábært tímabil í Pepsi-deild kvenna og trónir á toppnum eftir sjö umferðir með fullt hús stiga. Á mánudaginn gerðu norðanstúlkur sér lítið fyrir og skelltu Íslandsmeisturum Stjörnunnar í Garðabænum, 3-1.

Helena Ólafsdóttir fór yfir leikinn eins og alla aðra í Pepsi-mörkum kvenna á Stöð 2 Sport í gærkvöldi. Hún var þar með sérfræðingunum Þorkeli Mána Péturssyni og Þorláki Árnasyni.

Þorkell Máni hrósaði Halldóri Jóni Sigurðssyni, Donna, þjálfara Þórs/KA, fyrir að vita upp á hár hvað hann ætlar sér með lið sitt.

„Fyrir leik sagði hann að það væri ekkert sem væri að fara að koma þeim á óvart við leik Stjörnunnar,“ sagði Máni og rifjaði upp orð hans um að Þór/KA ætlaði sér að vinna alla leiki í sumar.

„Það er þetta viðhorf sem er í gangi hjá Þór/KA núna. Af öllum liðum sem eru að spila í íslenskum fótbolta í dag tel ég að Þór/KA sé langsvalasta liðið.“

Þorlákur Árnason segir að norðanstúlkur hafi sterkan málstað enda hafi um tíma í vetur staðið til að leggja liðið niður. Því var þó afstýrt. „Þau hafa mikið að selja,“ segir hann.

Máni tekur undir það. „Ef að Þór/KA stendur uppi sem sigurvegari á þessu Íslandsmóti, er þetta orðið sigursælasta knattspyrnulið Akureyrar frá upphafi.“

„Þá geta menn tekið allar fundargerðir um það að slíta þessu samstarfi og troða því þangað sem sólin skín ekki.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×