Íslenski boltinn

Stjarnan kláraði Grindavík á tæpum hálftíma | Mikilvægur Valssigur í Árbænum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði í fimmta leiknum í röð.
Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði í fimmta leiknum í röð. vísir/eyþór
Það tók Stjörnuna tæpan hálftíma að ganga frá leiknum gegn Grindavík í 5. umferð Pepsi-deildar kvenna í dag. Lokatölur 4-1, Stjörnunni í vil.

Ana Victoria Cate skoraði tvívegis á fyrstu 18 mínútunum og á 26. mínútu kom Anna María Baldursdóttir Stjörnunni í 3-0 sem voru hálfleikstölur.

Carolina Mendes minnkaði muninn á 47. mínútu en fjórum mínútum síðar kom Katrín Ásbjörnsdóttir Stjörnunni í 4-1 og þar við sat. Katrín hefur nú skorað í öllum fimm leikjum Stjörnunnar í Pepsi-deildinni, alls sex mörk.

Stjarnan er með 13 stig á toppi deildarinnar en Grindavík er í 7. sæti með sex stig.

Valur vann afar mikilvægan sigur á Fylki, 0-2, á Flórídana-vellinum.

Staðan var markalaus í hálfleik en á 54. mínútu kom Margrét Lára Viðarsdóttir Valskonum yfir með marki úr vítaspyrnu.

Átta mínútum síðar fékk Fylkir víti en Jesse Shugg skaut boltanum hátt yfir.

Á 76. mínútu stráði Elín Metta Jensen salti í sár Árbæinga þegar hún skoraði annað mark Vals. Lokatölur 0-2, Valskonum í vil.

Valur er í 6. sæti deildarinnar með sex stig en Fylkir er tveimur sætum neðar með þrjú stig.

ÍBV stöðvaði sigurgöngu FH með 1-0 sigri á Hásteinsvelli. Þetta var annar sigur ÍBV í röð og liðið er komið upp í 4. sæti deildarinnar. FH er í 5. sæti.

Kristín Erna Sigurlásdóttir skoraði eina mark leiksins á 35. mínútu. Hún skoraði tvö mörk í 0-4 sigri á Grindavík í síðustu umferð og hefur því skorað þrjú mörk í síðustu tveimur leikjum ÍBV.

Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×