„Þetta eru auðvitað frábærar fréttir og skemmtilegt þar sem ég samdi lagið einmitt á Spáni fyrir nokkrum árum,“ segir Jökull Júlíusson, söngvari Kaleo, en lagið Way down we go trónir núna í efsta sæti vinsældalistans á Spáni.
Lagið hefur verið vinsælt víða um Evrópu en auk Spánar fór lagið í fyrsta sæti í Austurríki, Sviss og Grikklandi. Lagið hefur einnig verið í toppsætunum í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Ástralíu.
Á síðasta ári fór lagið í fyrsta sæti Billboard-listans í Bandaríkjunum í flokki „alternative“ tónlistar. Lagið náði gullsölu þar í landi eða yfir 500 þúsund seldum eintökum en það kom út í október í fyrra.
Þá er lagið gríðarlega vinsælt í Úkraínu og hljómaði ótt og títt þegar Eurovisionkeppnin stóð þar yfir.
Kaleo spilar á hinum ýmsu tónlistarhátíðum í Evrópu, Ameríku og Asíu þangað til Kaleo Express túrinn hefst seinna í haust. Dagskráin hjá bandinu er þétt skipuð og lítill tími til að gera annað en spila tónlist. Þó brá Jökull sér á Rammstein-tónleikana í Kórnum og skemmti sér vel.
Hljómsveitin spilar í Bandaríkjunum á sex tónleikum áður en hún heilsar Evrópu þann 18. júní þegar Keleo spilar á Best kept secret hátíðinni í Hollandi.
„Við verðum mikið að spila í Evrópu bæði í sumar og haust og mikil tilhlökkun í mönnum,“ segir Jökull.
Sjóðheitur á ísköldum toppi vinsældalista
Benedikt Bóas skrifar
