Íslenski boltinn

Donni: Við ætlum að verða Íslandsmeistarar

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þór/KA er á mikilli siglingu.
Þór/KA er á mikilli siglingu. vísir/stefán
 „Við ætlum að verða Íslandsmeistarar og höfum alltaf stefnt á það,“ sagði Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari Þórs/KA eftir afar öflugan útisigur á Stjörnunni í Garðabæ í kvöld. Lokatölur urðu 1-3 og sýndu norðanstúlkur af sér mikinn karakter með því að koma til baka eftir að hafa lent undir.

„Það var stórt högg að fá mark á okkur þar sem við höfum ekki fengið mörg mörk á okkur. Það var virkilega sterkur karakter hjá stelpunum að halda bara áfram og gefa í ef eitthvað var,“ sagði Donni í samtali við Vísi eftir leik.

Þór/KA svaraði opnunarmarki Stjörnunnar með tveimur mörkum í fyrri hálfleik og kom það síðara á hárréttum tímapunkti, nokkrum sekúndum áður en flautað var til hálfleiks.

„Það breytti hálfleiksræðunni heilmilið. Það var afar ljúft. Natalia er búin að vera að skjóta endalaust og það skilaði sér loksins í þessum leik,“ segir Donni og bætir við að með því marki hafi leikurinn spilast upp í hendur Þór/KA.

„Seinni hálfleikur var uppleggið bara að halda stöðunni. Á þeirra heimavelli vissum við að þær myndu leggjast meira á okkur. Við erum góðar í að halda stöðunni og það gekk fullkomnlega upp,“ segir Donni.

Markadrottningin Sandra María Jessen spilaði sinn fyrsta leik í byrjunarliðinu hjá Þór/KA í sumar eftir að hún sleit krossbönd fyrr á árinu. Hún leit vel út og mun án efa styrkja sterkt lið Þórs/KA til muna þegar fram í sækir.

„Hún er að keyra sig í gang. Hún á meira inni, þetta lítur vel út og hún lítur vel út. Þetta snýst að öllu leyti um liðið og það hentaði vel að fá hana inn í þennan leik. Hún á ennþá eftir að verða betri eins og við. Við eigum bara eftir að verða betri og betri,“ segir Donni.

Þór/KA er nú með fimm stiga forskot á lið Stjörnunnar sem er í öðru sæti. Liðið er með fullt hús stiga og er hreinlega að stinga af.

„Það er mjög gott. Fimm stiga forskot er bara frábært og við fögnum því í hálfa mínútu eftir leikinn og við einbeitum okkur að næsta leik.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×