Enski boltinn

Umboðsmaður Pogba græddi 5,6 milljarða á sölu hans til United og FIFA setur rannsókn í gang

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba.
Paul Pogba. vísir/getty
Manchester United setti nýtt heimsmet síðasta sumar þegar liðið keypti Paul Pogba frá ítalska félaginu Juventus.

United borgaði 89,3 milljónir punda fyrir leikmanninn en nú hafa komið fram í dagsljósið upplýsingar um þá sem fengu borgað til að koma þessum félagsskiptum í gegn.

Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur tekið málið til rannsóknar en málið blossaði upp eftir að lekabókin „The Football Leaks: The Dirty Business of Football“ greindi frá upplýsingum um þá sem græddu á sölunni á Pogba.  Bókin var gefin út í Þýskalandi.

Samkvæmt heimildum bókarinnar átti Mino Raiola, umboðsmaður Paul Pogba, að hafa fengið 41 milljón punda í eigin vasa eða 5,6 milljarða íslenskra króna.  BBC segir frá.

Juventus gaf það út á sínum tíma að félagið fengið um 72,6 milljónir evra í sinn hlut en kaupverðið var 105 milljónir í evrum talið. Samkvæmt því stæðu eftir um 32 milljónir evra sem eru 3,7 milljarðar íslenskra króna. Sú upphæð passar hinsvegar ekki við upplýsingarnar í bókinni „The Football Leaks: The Dirty Business of Football.“

Menn í herbúðum Manchester United segjast hafa ekkert að fela og að FIFA hafi verið með alla pappíra hjá sér um kaupin síðan að gengið var frá þeim í ágústmánuði síðastliðnum.

Manchester United var þarna að kaupa Paul Pogba aftur til félagsins eftir að hafa selt hann til Juventus fyrir 1,5 milljónir punda árið 2012.

Umræddur Mino Raiola er líka umboðsmaður Zlatan Ibrahimovic sem kom til United á svipuðu tíma og Pogba. United fékk hinsvegar Zlatan frítt en gerðu hann aftur á móti að launahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar samkvæmt heimildum úr þýsku lekabókinni.


Tengdar fréttir

Pogba spilar ekki gegn Man. City

Jose Mourinho, stjóri Man. Utd, staðfesti á blaðamannafundi í dag að Paul Pogba verði ekki með Man. Utd gegn Man. City annað kvöld.

Meiddu mennirnir að snúa aftur hjá Manchester United

Manchester United spilar mikilvægan leik á móti Celta Vigo á morgun þegar liðin mætast í fyrri leik sínum í undanúrslitum Evrópudeildarinnar. Nú eru aðeins þrír leikir í Meistaradeildarsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×