Innlent

Vindhviður náð allt að 50 metrum á sekúndu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspáin fyrir hádegi í dag.
Vindaspáin fyrir hádegi í dag. mynd/veðurstofa íslands
Mikið hvassviðri gengur nú yfir landið norðvestanvert og Vestfirði og hafa hviður á Gemlufallsheiði á Vestfjörðum náð allt að 50 metrum á sekúndu að sögn Helgu Ívarsdóttur, vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Helga segir að á þessu hluta landsins hafi veðrið náð hámarki sínu en síðdegis nær það svo hámarki á Suður-og Suðausturlandi. Hefur verið brugðið á það ráð að loka veginum á milli Kirkjubæjarklausturs og Jökulsárlóns frá klukkan 11 í dag sökum þessa.

Þá er búist við því að þjóðveginum undir Eyjafjöllum verði lokað seinna í dag en ákvörðun þess efnis verður tekin í hádeginu. Lögreglan á Suðurlandi hvetur fólk til að festa lausa muni en trampólín fauk á Höfn í Hornafirði í morgun.

Að sögn Helgu má búast við mjög hvössum vindhviðum á Suður- og Suðausturlandi í dag en um veðrið á Vestfjörðum í morgun segir hún:

„Í morgun á Vestfjörðum hafa þetta víða verið rúmlega 30 metrar á sekúndu en svo hefur þetta náð alveg 50 metrum á sekúndu á Gemlufallsheiði.“

Þá er varasamt að vera á ferðinni á fjallvegum þar sem hitinn er nálægt frostmarki með tilheyrandi snjókomu og slyddu en nánar má lesa um færð á vegum á vef Vegagerðarinnar.

Aðspurð hvenær veðrið gangi niður segir Helga að verði hvasst á landinu fram á laugardag. Vindur verður þó heldur hægari en hann verður í dag en það er ekki búist við rólegra veðri fyrr en á sunnudag. Þá verðru nokkuð kalt á landinu næstu daga og ekki búist við því að það hlýni neitt af ráði fyrr en um helgina.

Veðurhorfur næstu daga samkvæmt spá Veðurstofu Íslands: 

Norðaustan 15-25 m/s, hvassast norðvestantil á landinu fram yfir hádegi, en við suðurströndina síðdegis og víða hvassir vindstrengir við fjöll. Víða rigning, einkum austanlands, en sums staðar slydda norðantil, en snjókoma til fjalla.

Heldur hægari á morgun, stöku él fyrir norðan, dálítil rigning um landið suðaustanvert, en þurrt að mestu vestanlands. Hiti 0 til 8 stig, mildast sunnantil, en heldur svalara á morgun.


Á föstudag og laugardag:

Austan 10-20 m/s, hvassast við suður- og norðurströndina. Rigning með köflum, en talsverð rigning suðaustan- og austanlands. Hlýnandi veður.

Á sunnudag:

Austlæg átt 5-13 og rigning suðaustan- og austanlands, en annars úrkomulítið. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast um landið vestanvert.

Á mánudag:

Austlæg eða breytileg átt og úrkomulítið, en rigning suðaustantil um kvöldið. Milt í veðri.

Á þriðjudag:

Suðaustlæg átt, skýjað með köflum, en skúrir á stöku stað og hiti 8 til 15 stig.



Fréttin var uppfærð klukkan 11:39.




Tengdar fréttir

Byrjað að hvessa

Stormur er allvíða á Vestfjörðum og farið að bæta í vind í öðrum landshlutum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×