Lífið

Var vinsamlegast beðin um að gefa pelsinn

Guðný Hrönn skrifar
Rihanna lét sig ekki vanta á tískusýningu Christian Dior í seinustu viku. Hún klæddist loðfeld frá tískuhúsinu.
Rihanna lét sig ekki vanta á tískusýningu Christian Dior í seinustu viku. Hún klæddist loðfeld frá tískuhúsinu. NORDICPHOTOS/GETTY
Dýraverndunarsamtökin PETA hafa skrifað opið bréf til söngkonunnar Rihönnu þar sem hún er beðin um að gefa sýrlenskum flóttamönnum pelsana sína. Sömuleiðis er hún í bréfinu hvött til að hætta alfarið að klæðast loðfeldi.

Rihanna klæddist þessum síða pels á tískusýningu Dior.NORDICPHOTOS/GETTY
Söngkonan vakti athygli fyrr í mánuðinum á tískusýningu Christian Dior þar sem hún klæddist hnésíðum pels úr smiðju tískuhússins. Fjölmargir aðdáendur söngkonunnar munu hafa lýst yfir óánægju sinni yfir þeirri ákvörðun hennar að klæðast pelsinum og í kjölfarið birti PETA bréfið.

Í bréfinu segir Andrew Bernstein, talsmaður PETA samtakanna meðal annars: „Líkt og við óska þeir [aðdáendurnir] eftir því að þú hættir að ganga í loðfeldi og kjósir frekar klæðnað sem drepur engan. Til viðbótar biðjum við þig einnig að íhuga að gefa okkur pelsana þína.“ Því næst lýsir Bernstein því hvernig loðfeldur er gjarnan framleiddur og þjáningunni sem framleiðslan veldur dýrum.

„Við höfum í gegnum tíðina sent flíkur úr loðfeldum til sýrlenskra flóttamanna og í gistiskýli fyrir heimilislausa.“

Þess má geta að árið 2015 sendu PETA samtökin um 100 flíkur úr loðfeldum til sýrlenskra flóttamanna sem dvelja í frönsku borginni Calais. Þá sendu samtökin frá sér yfirlýsingu um að samkvæmt þeirra kokkabókum væri það eina fólkið sem hefði afsökun til að klæðast loðfeldi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×