Sport

Hægt að fræðast um Íslenska íþróttaundrið í hádeginu á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Landsliðsbræðurnir Aron Einar og Arnór Gunnarssynir hafa báðir farið á stórmót á síðustu mánuðum.
Landsliðsbræðurnir Aron Einar og Arnór Gunnarssynir hafa báðir farið á stórmót á síðustu mánuðum. Vísir/Getty
Viðar Halldórsson, doktor í félagsfræði, hefur skoðað mikið leyndarmálið á bak við glæsilegan árangur íslensks íþróttafólks á síðustu árum.

Ísland, þessi 330 þúsund manna þjóð norður í Atlantshafi, hefur komið hverju landsliðinu á fætur öðru inn á stórmót, og íslenskir einstaklingsíþróttamenn hafa unnið til verðlauna á stórmótum.  Árangur Íslands er mjög eftirtektarverður en árið 2016 er líklega það eitt það besta frá upphafi í íslensku íþróttalífi.

Viðar Halldórsson hefur nú skrifað bók um efnið en hann hefur á undanförnum árum stundað rannsóknir á því hvernig árangur einstaklinga og hópa/liða mótast af hinu félagslega umhverfi og birt rannsóknir þess efnis í ýmsum fræðitímaritum.

Í framhaldi þess vaknaði spurningin. Hvernig getur örþjóð eins og Ísland eignast íþróttalandslið í fremstu röð í öllum sínum helstu hópíþróttum - og það á sama tíma?

Viðar gerði rannsókn sem ætlað var að svara þeirri spurningu og eru niðurstöðurnar að finna í nýútkominni bók „Sport in Iceland: How small nations achieve international success“.

Á morgun, fimmtudaginn 18. maí mun Dr. Viðar Halldórsson síðan vera með hádegisfund í E-sal Íþróttamiðstöðvarinnar í Laugardal og ber fyrirlesturinn heitið „Íslenska íþróttaundrið“ og þar mun hann fara yfir efni bókar sinnar.

Fyrirlesturinn hefst klukkan tólf á hádegi og er gert ráð fyrir að hann standi í eina klukkustund með umræðum. Aðgangur er ókeypis en fólk er beðið um að skrá sig. Skráningin fer fram hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×