Íslenski boltinn

Haukastúlkur ekki kindarlegar við sauðburð | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hildigunnur Ólafsdóttir með lamb í fanginu.
Hildigunnur Ólafsdóttir með lamb í fanginu. mynd/skjáskot
Nýliðar Haukar eru í vandræðum í Pepsi-deild kvenna en liðið er stigalaust eftir fjórar umferðir líkt og KR.

Haukarnir eru á botninum enda liðið aðeins búið að skora tvö mörk en fá á sig tólf. Það tapaði síðast, 2-0, á móti Þór/KA og á mjög erfiðan leik fyrir höndum annað kvöld þegar það tekur á móti Breiðabliki.

Til að undirbúa sig fyrir þann leik skelltu Haukastúlkurnar sér í sveitina til að tengjast aðeins náttúrunni og stemningunni í kringum sauðburð.

„Þær koma því andlega vel úthvíldar í leikinn og stefnum við að sjá fyrstu stigin í húsi á föstudag!“ segir á Facebook-síðu Haukanna þar sem smá sjá stutt myndbrot úr ferðinni.

Þar er Hildigunni Ólafsdóttur, framherja Haukaliðsins, rétt lamb og verður ekki sagt að borgarbarnið hafi verið kindarlegt með krúttið í fanginu.

Vonandi hleypir þessi sveitaferð smá lífi í Haukanna en þær mæta í stórleikinn á móti Blikunum beint frá býli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×