Erlent

Suður-Kóreumenn undrandi vegna orða Trump

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Suður-Kóreumenn eru undrandi vegna ummæla Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um Norður-Kóreu og einræðisherran Kim Jong Un. Forsetinn hefur farið um víðan völl í máli sínu og hefur meðal annars kallað Kim snjallan og lýst því yfir að hann væri tilbúinn til að funda með einræðisherranum.

Á undanförnum vikum hefur Trump ýjað að mögulegum hernaðaraðgerðum vegna vopnatilrauna Norður-Kóreu, kallað eftir hertum þvingunum gegn ríkinu og kallað eftir friðarviðræðum. Þá hrósaði hann Kim Jong Un í viðtali í gær og sagði ljóst að hann væri mjög snjall, því honum hefði tekist að halda völdum sínum.

Í öðru viðtali í gær sagði Trump að það yrði sér heiður að funda með Kim.

Það hefur valdið usla í Suður-Kóreu þar sem Trump var jafnvel lýst sem rúgbí-bolta. Sú lýsing er til marks um óútreiknanlega hegðun.

AP fréttaveitan segir embættismenn í Suður-Kóreu þó hafa í einrúmi lýst yfir jákvæðni gagnvart óhefðbundnum aðferðum forsetans bandaríska. Hins vegar eru Suður-Kóreumenn hræddir um að verða útskúfaðir frá mögulegum viðræðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×