Innlent

Segir mikilvægt að vernda unga gesti líkamsræktarstöðva fyrir notkun stera

Birgir Olgeirsson skrifar
Birgir Sverrisson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá ÍSÍ, segir sjálfstæða lyfjastofnuna hugsanlega verða að veruleika eftir nokkrar vikur.
Birgir Sverrisson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá ÍSÍ, segir sjálfstæða lyfjastofnuna hugsanlega verða að veruleika eftir nokkrar vikur. Vísir/Getty
„Hugsanlega á næstu vikum,“ segir Birgir Sverrisson, verkefnisstjóri lyfjamála hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, spurður hvenær lyfjaeftirlitið verður orðið að sjálfstæðri stofnun.

Vísir hefur greint frá því að það standi til að gera lyfjaeftirlitið að sjálfstæðri stofnun. Með því fyrirkomulagi gæti það gert samning við óháðar íþróttagreinar lyfjaprófanir og við líkamsræktarstöðvar um lyfjaprófanir á korthöfum.

Sjá einnig: Reebok Fitness og Sporthúsið opin fyrir því að lyfjaprófa korthafa

Birgir segir að lyfjaeftirlitið verði að sjálfstæðri stofnun um leið og framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkir breytingu á lögum ÍSÍ um lyfjamál og skipulagsskrá stofnunarinnar er samþykkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hann tekur það fram að þegar hann segir að þetta geti hugsanlega gerst á næstu vikum sé það alfarið byggt á hans mati og þarf ekki endilega að verða.

Þetta fyrirkomulag tíðkast til dæmis í Danmörku, það er að lyfjaprófa korthafa líkamsræktastöðva, og yrði fyrirkomulagið hér á landi í grunninn að danskri fyrirmynd en útfærslan líklega öðruvísi.

Samkomulagið yrði þess eðlis að báðir aðilar myndu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að sporna gegn notkun ólöglegra efna í líkamsræktarstöðvum hvað varðar fræðslu, forvarnir og almennt eftirlit.

„Þetta er auðvitað margfalt stærra í Danmörku og sveitarfélögin taka þátt í þessum forvörnum ásamt fleiri hagsmunaaðilum. Þannig að útfærslan varðandi fræðslumál og þess háttar verður aldrei eins. Hins vegar fara prófin sjálf eins fram,“ segir Birgir.

„Viðkomandi er boðaður í lyfjapróf á staðnum og þarf að skila sýni. Ef um neitun er að ræða þá jafngildir það jákvæðu sýni.“Vísir/Getty
Alla jafna farið fram á þvagprufu

Spurður hvernig lyfjaprófin muni fara fram á þeim sem stunda líkamsræktarstöðvar, ef af samkomulaginu verður, segir Birgir að alla jafna verði farið fram á þvagprufu. „Blóðprufa er einnig möguleiki. Viðkomandi er boðaður í lyfjapróf á staðnum og þarf að skila sýni. Ef um neitun er að ræða þá jafngildir það jákvæðu sýni.“

Ekki yrði um handhófskennt próf að ræða, heldur yrðu þeir valdir í próf sem eru grunaðir um notkun vefaukandi efna. 

Hann segir að það muni fara eftir samkomulagi um lyfjapróf þegar hann er spurður hvort prófað verði fyrir fleiru en vefaukandi sterum. „En aðallega er verið að skima fyrir vefaukandi sterum.“

Daninn vill fleiri lyfjapróf

Spurður hvernig þetta fyrirkomulag hefur gengið í Danmörku segir hann erfitt að meta nákvæmlega hversu skilvirkar forvarnir eru hvað varðar fjölda jákvæðra sýna eftir að kerfið var tekið í gagnið.

„Samkvæmt árlegum könnunum í Danmörku er almenn ánægja með hugmyndafræðina meðal forráðamanna stöðvanna. Það sem forráðamenn stöðvanna hafa hins vegar viljað sjá meira af eru fleiri lyfjapróf, meiri sýnileiki og fleiri heimsóknir frá ráðgjöfum lyfjaeftirlitsins þar í landi. Kostnaður við slíkt eftirlit hefur þó verið hindrun fyrir sumar af líkamsræktarstöðvunum en lyfjaeftirlitið hefur í hyggju að finna lausn á því,“ segir Birgir.

Hann segir hvert lyfjapróf kosta á bilinu 50 til 70 þúsund krónur en það fari þó oft eftir aðstæðum.

Persónuverndarlög krefjast upplýsts samþykkis

Velji líkamsræktarstöð að fara í samstarf við sjálfstætt lyfjaeftirlit um lyfjaprófanir þá þurfa korthafar væntanlega að samþykkja skilmála áskriftar að stöðvunum þar sem yrði kveðið á um að það megi lyfjaprófa þá. Nú þegar eru líkamsræktarstöðvarnar Reebok Fitness og World Class með ákvæði í sínum skilmálum sem banna notkun á ólöglegum efnum. Reebok Fitness er með ákvæði um lyfjapróf en ekki World Class.

Afla þarf upplýstu samþykki ef framkvæma á lyfjapróf á korthöfum líkamsræktarstöðva.Vísir/Getty
Í lögum um persónuvernd er kveðið á um að nauðsynlegt sé að útvega upplýstu samþykki frá einstaklingum ef á að meðhöndla viðkvæmar persónuupplýsingar um þá. Ef upplýsingarnar eru viðkvæmar þarf að vera alveg skýrt að einstaklingurinn geri sér grein fyrir því og veiti samþykki sitt.

Birgir segir að slíkt samþykki verði til staðar samþykki korthafar skilmálana.

Mikilvægt að vernda unga gesti

Spurður hvers vegna lyfjaeftirlit ÍSÍ telur þörf á að lyfjaprófa iðkendur í líkamsræktarstöðvum segir hann íslenska ríkið undirskriftaraðila að sáttmála mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, og því skuldbundið til að takmarka aðgengi íþróttamanna að ólöglegum árangursbætandi efnum.

„Og íþróttir teygja anga sína inn á líkamsræktarstöðvar. Lyfjamisnotkun er ekki einungis vandamál í íþróttahreyfingunni heldur einnig lýðheilsuvandamál. Það er mikilvægt að efla forvarnir og vernda unga iðkendur stöðvanna.“

Mikið fall í Danmörku

Árið 2014 féllu 152 af þeim 343 iðkendum líkamsræktarstöðva í Danmörku sem voru boðaðir í lyfjapróf. Þeir sem féllu mældust annaðhvort með gildi sem sýndu fram á notkun vefaukandi stera eða neituðu einfaldlega að gangast undir prófið.

Í umfjöllun Metroexpress í Danmörku kom fram að þar í landi stundi 650 þúsund manns líkamsræktarstöðvar sem hafa gengist undir þessa skilmála danska lyfjaeftirlitsins. Korthafar líkamsræktarstöðva í Danmörku sem falla á lyfjaprófi eru settir í tveggja ára bann.

Talað er um að stöðvarnar í Danmörku sem lyfjaprófa iðkendur hafi orðið vinsælli því langflestir sem þær stunda nota ekki vefaukandi efni og er illa við að æfa á meðal þeirra sem það gera.Vísir/Getty
Vísir ræddi við Skúla Skúlason, fyrrverandi formann lyfjaeftirlits ÍSÍ, um málið í apríl síðastliðnum en hann sagði að í Danmörku séu um 80 til 90 prósent stöðva með skilmála um lyfjapróf. Þessi breyting hafi valdið deilum í upphafi og margir haldið því fram að þetta myndi minnka aðsókn í stöðvarnar því að litið yrði á þetta fyrirkomulag sem innrás í einkalíf þeirra sem stunda líkamsræktarstöðva.

Skúli sagði að stöðvarnar sem höfðu þetta fyrirkomulag hefðu hins vegar orðið vinsælli, þar sem lang flestir iðkendur nota ekki vefaukandi efni. „Og er meinilla við að hafa 150 kílóa tröll við hliðina á sér sem lætur kannski 40 kílóa handlóð detta á gólfið eftir notkun.“

Stuðst við sterkar vísbendingar

Hann sagði stöðvarnar ekki boða fólk í lyfjapróf nema sterkar vísbendingar séu um misnotkun. Það sé til að mynda ástæðan fyrir því hvers vegna svo mikið fall í þessum lyfjaprófum í Danmörku. Valið sé vandlega úr og ekki farið í lyfjapróf nema sterkur grunur sé um misnotkun.

Steranotkun er alls ekki einkamál þeirra sem það gera að mati Skúla. Hann sagði steraneyslu eiga eftir að verða meira samfélagsvandamál heldur en hingað til því álagið verði mun meira á heilbrigðiskerfið vegna aukaverkana sem munu hrjá þessa neytendur til frambúðar.

Margþættar aukaverkanir

Ýmsar aukaverkanir hljóstast af steranotkun. Aukaverkanir hjá báðum kynjum geta verið hjarta- og æðasjúkdómar, lifrarbilun, hárlos og skalli, bólur, rifin húð, hrukkur, aukin þyngd og vökvaaukning í líkamanum, sina- og vöðvaskaðar  (sinafestingar rifna og vöðvar rifna), aukin hætta á hjartaáfalli, minnkaður vöxtur hjá börnum og unglingum, blóð í þvagi, óreglulegur hjartsláttur, höfuðverkur og ófrjósemi.

Hjá körlum geta brjóst stækkað, í einhverjum tilfellum myndast mjólk í brjóstunum, sæðisframleiðsla minnkar, eistu minnka, kynlöngun  eykst á meðan lyf er tekið, kynlöngun minnkar þegar dregið er úr notkun lyfsins eða henni hætt, þvaglátsvandamál gera vart við sig og eigin framleiðsla testósteróns minnkar.

Líkamleg einkenni hjá konum eru óreglulegar tíðablæðingar, stækkun á sníp, aukin kynlöngun, aukinn skeggvöxtur, skallamyndun, brjóstin minnka, rödd dýpkar (líkt og mútur), ófrjósemi og hætta á fósturskaða við þungun.


Tengdar fréttir

Steraæði á Íslandi

Læknar ávísa mun meira af sterum en áður, saksóknari sér tengingu við heimilisofbeldismál og eftirlit í líkamsræktarstöðvum er handan við hornið. Sérfræðingur segir stera ekki einkamál þeirra sem þá nota.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×