Fótbolti

Enginn skorað hjá Buffon í fimm mánuði

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gianluigi Buffon og félagar í Juventus hafa lítinn áhuga á að fá á sig mörk í Meistaradeild Evrópu.

Buffon lék sinn hundraðasta leik í Meistaradeildinni í gær þegar Juventus vann 0-2 sigur á Monaco í fyrri leik liðanna í undanúrslitunum. Ítölsku meistararnir standa því afar vel að vígi fyrir seinni leikinn á þriðjudaginn.

Juventus hefur nú haldið hreinu í sex leikjum í röð í Meistaradeildinni sem er mikið afrek, sérstaklega í ljósi þess af helmingur þessara leikja var gegn Monaco og Barcelona, tveimur af sókndjörfustu liðum Evrópu.

Í 11 leikjum í Meistaradeildinni í vetur hefur Juventus aðeins fengið á sig tvö mörk og haldið markinu níu sinnum hreinu.

Hinn 39 ára gamli Buffon hefur haldið átta sinnum hreinu en hann hvíldi í 2-0 sigri á Dinamo Zabreb í lokaumferð riðlakeppninnar. Brasilíumaðurinn Neto stóð þá í marki Juventus.

Buffon fékk síðast á sig mark í Meistaradeildinni í 1-3 sigri á Sevilla 22. nóvember 2016. Nicolás Pareja skoraði þá með skoti fyrir utan teig. Síðan þá er liðin 621 mínúta.

Besti leikur Buffons í Meistaradeildinni í vetur var eflaust í 1-1 jafntefli við Lyon 2. nóvember á síðasta ári. Þar átti hann þrjár frábærar vörslur en þá bestu má sjá hér að neðan.

Meistaradeildin er eini félagsliðatitilinn sem Buffon á eftir að vinna á löngum og glæsilegum ferli. Hann hefur tvisvar farið í úrslit með Juventus (2003 og 2015) en tapaði í bæði skiptin.


Tengdar fréttir

Sjáðu mörkin hjá Higuaín | Myndbönd

Argentínumaðurinn Gonzalo Higuaín skoraði bæði mörk Juventus þegar liðið vann 0-2 sigur á Monaco í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Juventus stendur því afar vel að vígi fyrir seinni leikinn á þriðjudaginn.

Higuain sýndi að hann getur verið maður stóru leikjanna

Argentínski framherjinn Gonzalo Higuain sýndi og sannaði í kvöld að hann getur vel blómstrað í stóru leikjunum. Hann skoraði þá í tvígang fyrir Juventus í fyrri leik liðsins gegn Monaco í undanúrslitum Meistaradeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×