Skoðun

ESB og mennskan

Þór Rögnvaldsson skrifar
Frá sjónarhorni Framsóknar líta málin svona út: mennskan er lífið innan múranna: sveitin, tungan, þjóðernið. Við fjarlægjumst því hina sönnu mennsku með því að ganga yfirþjóðlegri mennsku á hönd. Enda er það svo – a.m.k. séð með augum Framsóknar – að við ERUM Íslendingar en VERÐUM yfirþjóðleg. Hið yfirþjóðlega eðli er þar af leiðandi ekki upprunalegt, náttúrulegt eðli. Eða með öðrum orðum: náttúrulegt eðli manneskjunnar er afbakað – firrt – í hinum yfirþjóðlega heimi og barátta Framsóknar gegn ESB er því barátta fyrir hugsjón; þeirri hugsjón sem hefur mennsku manneskjunnar að leiðarljósi.

Vinstri grænir fallast á öll þessi rök Framsóknar að viðbættu persónulegu ívafi. Vinstri grænir eru nefnilega ekki bara framsóknarmenn – ekki BARA – heldur líka hugsjónamenn upp á eigin spýtur. Þeir eru t.d. töluverðir menningarvitar og andóf menningarvitanna gegn ESB er í grófum dráttum í þá veruna að ESB-heimurinn sé lítið annað en einkaklúbbur sérhagsmunaseggja sem vissulega fella múrana innbyrðis á milli sín, en þá í því augnamiði einu að reisa þeim mun rammgerðari múr umhverfis sig – umhverfis ESB-heiminn – til þess að halda HINUM úti. Þessir HINIR eru svo þeir sem minna mega sín – fátæku þróunarríkin – sem nú eiga erfiðara með að koma vörum sínum á markað – enda utan múranna.

Og loks eru það Sjálfstæðismenn. Hvað er af þeim að frétta? Skemmst er frá því að segja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur enga hugsjón hvað þetta mál varðar. Afstaða flokksins stýrist einfaldlega af þjónkun við LÍÚ. LÍÚ er á móti ESB og þess vegna er Sjálfstæðisflokkurinn á móti ESB: svo einfalt er það.

Lítum nú dálítið á þær röksemdir sem hér hefur verið tæpt á.

Hugsjón Framsóknar í þessu máli er augljóslega ekkert annað en þjóðernishyggja 19. aldar – en þó ekki í upprunalegu formi. Í upprunalegu formi var þjóðernishyggjan jákvætt afl vegna þess að hún var sameiningarafl. Nú hins vegar er þessi þjóðernishyggja ekkert annað en illskeytt sundrungarafl vegna þess að hún reisir múra á milli þjóða. Þjóðernishyggja okkar daga birtist því eins og reimleikar vegna þess að hér er það liðinn tími sem gengur aftur ljósum logum í brengluðu og firrtu formi.

Sem andsvar við þessum reimleikum er eðlilegt og haldbest að tefla fram ESB-hugsjóninni sem hvílir á eftirfarandi tveimur meginstoðum eða kenningum: 1)Sameinaðir stöndum við; sundraðir föllum við. 2) Öll erum við manneskjur. Við fellum niður múrana í fyrsta lagi vegna þess að sameinuð erum við sterkari og svo í öðru lagi vegna þess að enginn á einkarétt á mennskunni. Öll erum við manneskjur óháð þjóðerni, kynþætti, kyni og menningu (svo eitthvað sé nefnt). Framsókn hefur þess vegna ekki rétt fyrir sér: við erum ekki fyrst og fremst Íslendingar: Við erum fyrst og fremst manneskjur, en í öðru sæti kemur sérstaðan, t.d. það að við erum Íslendingar.

Sem andsvar við röksemdum menningarvitanna hjá Vinstri grænum er t.d. hægt að benda á eftirfarandi. ESB er ekki nema áfangi en ekki markmið – að minnsta kosti ekki Markmiðið (með stórum staf). Um heim allan eru þjóðirnar að sameinast – og þá aðallega í formi fríverslunar. Ég sé fyrir mér að með tíð og tíma breytist þessi fríverslun í þjóðasambönd (að hætti ESB) – þar til hvert einasta mannsbarn í heiminum öllum er í einhverjum skilningi innan múranna. Síðan sé ég fyrir mér að þessi sambönd muni í fyrsta lagi tengjast innbyrðis í fríverslun (sbr. EES) og í öðru lagi í gegnum Sameinuðu þjóðirnar sem yrðu hið raunverulega yfirþjóðlega vald með æðsta hæstarétti og herafla til þess að framfylgja dómum. Þetta er ESB-hugsjónin í fullgerðu formi – sem táknar að þá er tími kominn til þess að leggja sambandið niður – sem og öll önnur sambönd af sama toga – og fella niður alla múra. Þetta er markmiðið; hið raunverulega Markmið (með stórum staf). Og nú skiptist heimurinn ekki lengur í OKKUR (sem erum innan múranna) og HINA (sem eru utan múranna). Það eru bara VIÐ sem öll erum manneskjur.

Hvaða valkosti eigum við?

Mér er fullljóst að sumum kann að finnast þessar bollaleggingar mínar í meira lagi útópískar og úr tengslum við raunveruleikann. Má vera; má vel vera – því miður! Kannski mun mannkyninu aldrei takast að sameinast á þann hátt sem ég hef leyft mér að hugleiða í þessu greinarkorni. Spurningin mikilvæga er hins vegar eftirfarandi: hvaða valkost eða valkosti eigum við mennirnir í stöðunni? Meira að segja Eisen­hower sjálfur lét þau orð falla strax á 6. áratugnum að mannkynið ætti ekki lengur neinn valkost við frið – vegna bombunnar. Eða með öðrum orðum: annaðhvort veljum við friðinn eða þá að við endum með því að tortíma okkur: friður eða tortíming.

Í annan stað held ég að fullyrða megi að frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafi heimurinn færst hægt og hikandi, en samt bítandi, í sameiningarátt – og, já: múrar hafa fallið. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu tímum að framsóknarmenn allra landa – misjafnlega öfgasinnaðir þjóðernissinnar – eru aftur farnir að sækja í sig veðrið svo um munar – og já, því miður, nú vilja menn aftur fara að reisa múra. Hvar endar þetta?




Skoðun

Sjá meira


×