Lífið

Blaðamaður Aftonbladet segir Svölu líkari vondu stjúpunni en Mjallhvíti

Atli Ísleifsson skrifar
Svala okkar kemur fram á fyrra undanúrslitakvöldinu næstkomandi þriðjudag þar sem hún verður sú þrettánda til að stíga á svið.
Svala okkar kemur fram á fyrra undanúrslitakvöldinu næstkomandi þriðjudag þar sem hún verður sú þrettánda til að stíga á svið. Andres Putting/EBU
Tobbe Ek, blaðamaður sænska Aftonbladet, segir stílíseringin á Svölu vera „hörð og stíf“ sem geri það að verkum að hún sé meira eins og „vonda stjúpan“ en Mjallhvít. Hann segist þó hrifinn af laginu.

Ek er nú staddur í Kænugarði og er duglegur að skrifa inn á vef Aftonbladet, en hann hefur farið á Eurovision-keppnirnar síðustu ár.

Á Eurovision-bloggi sínu skrifar hann um Ísland eftir blaðamannafund gærdagsins að það hafi verið mikið um konubrjóst á skjánum í fjölmiðlamiðstöðinni þann daginn. „Fyrst Georgía og nú Ísland með listakonuna Svölu sem er í mjög flegnum fatnaði.“

„Mér líkar virkilega við þetta lag, Paper, en stílíseringin á henni verður svo hörð og stíf að það er meira eins og hún sé vonda stjúpmóðirin en Mjallhvít. Leitt,“ skrifar Ek.

Samkvæmt veðbönkum er mjög tæpt hvort að Svala muni komast áfram í úrslit keppninnar. Svala okkar kemur fram á fyrra undanúrslitakvöldinu næstkomandi þriðjudag þar sem hún verður sú þrettánda til að stíga á svið.

Ítölum er af flestum spáð sigri í keppninni í ár.

Fréttastofa 365 verður með ítarlega umfjöllun frá Eurovision í Kænugarði næstu daga. Fréttamennirnir Stefán Árni Pálsson og Benedikt Bóas Hinriksson verða með umfjöllun hér á Vísi, Stöð 2, Fréttablaðinu og á Bylgjunni á hverjum degi í gegnum alla keppnina. Þá verður sérstakur vefþáttur á Vísi alla dagana og hefur sá þáttur fengið nafnið Júrógarðurinn.

Hægt verður að fylgjast með ævintýrum Stefáns og Benedikts í Kænugarði á Twitter-reikningi Lífsins og á Snapchat-reikningi 365 sem heitir einfaldlega Snap-365.


Við minnum líka lesendur á að fylgjast með Facebook-síðu Lífsins, Facebook-síðu Vísis og Twitter-reikningi Vísis.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.