Kjörstaðir opnuðu klukkan átta að staðartíma í morgun og mun þeim síðustu loka klukkan 20, eða klukkan 18 að íslenskum tíma. Má búast við fyrstu tölum skömmu síðar.
Um klukkan níu að íslenskum tíma mætti Emmanuel Macron á kjörstað í strandbænum Touquet í norðurhluta landsins þar sem eiginkona hans Brigitte Macron á hús. Hann mun síðar í dag halda til Parísar og mun ásamt stuðningsmönnum sínum koma saman við glerpíramídann við Louvre þegar fyrstu tölur verða kynntar.
Nokkrum mínútum síðar mætti Marine Le Pen á kjörstað í Hénin-Beaumont í norðurhluta landsins, en líkt og Macron mun hún halda til Parísar síðar í dag.
Francois Hollande Frakklandsforseti, sem ákvað í haust að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu, mætti á kjörstað í Tulle í miðju landsins um klukkan tíu að staðartíma í morgun. Hollande hefur hvatt kjósendur til að kjósa Macron sem átti áður sæti í ríkisstjórn Hollande.