Erlent

UKIP lofar búrkubanni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Paul Nuttal, leiðtogi breska stjórnmálaflokksins UKIP, situr fyrir aftan fyrrverandi leiðtogann, Nigel Farage, á Evrópuþinginu í Strasbourg í byrjun apríl.
Paul Nuttal, leiðtogi breska stjórnmálaflokksins UKIP, situr fyrir aftan fyrrverandi leiðtogann, Nigel Farage, á Evrópuþinginu í Strasbourg í byrjun apríl. Vísir/Getty
Breski stjórnmálaflokkurinn UKIP heitir því að banna búrkur í nýrri stefnuyfirlýsingu sinni. Þetta sagði leiðtogi flokksins, Paul Nuttal, í viðtali í þætti á BBC.



Búrkur eru trúar- og menningarlegur klæðnaður kvenna innan íslam.

Nuttal sagði að það að klæðast búrkum, sem hylja allt andlitið, eða niqab, sem hylja allt andlitið nema augun, á almannafæri væri ógn við öryggi og kæmi í veg fyrir samþættingu múslima inn í breskt samfélag. Hann sagði að þær konur sem brytu búrku-lögin yrðu sektaðar.

Þá hefur UKIP einnig lofað því að banna sharia-lög.

„Öryggisógnin er á hærra stigi en venjulega um þessar mundir og til þess að öryggismyndavélar nái að gegna hlutverki sínu verðum við að geta séð framan í fólk,“ sagði Nuttel.

„Þetta yrði í takt við það sem er að gerast í öðrum Evrópulöndum á borð við Belgíu, Búlgaríu – það er meira að segja búrkubann í Barcelona, á sumum stöðum á Ítalíu og, einmitt, Angela Merkel er að tala um þetta í Þýskalandi í augnablikinu.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem UKIP leggur til búrkubann en þáverandi leiðtogi flokksins, Nigel Farage, lagði eitt slíkt fram árið 2010. Síðan hafði flokkurinn hætt við tillöguna og hún birtist ekki í stefnuyfirlýsingu hans árið 2015.

Slæður sem hylja allt andlitið eru nú þegar bannaðar á almannafæri í sumum Evrópulöndum, þ.á.m. í Frakklandi, þar sem forsetakosningar eru haldnar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×