Íslenski boltinn

Gæti orðið geggjað sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum með félögum sínum í Stjörnunni síðasta haust. Hún verður fjarri góðu gamni í sumar þar sem að hún er ólétt.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir fagnar Íslandsmeistaratitlinum með félögum sínum í Stjörnunni síðasta haust. Hún verður fjarri góðu gamni í sumar þar sem að hún er ólétt. vísir/eyþór
„Tímabilið í fyrra var frábært og það gæti orðið enn skemmtilegra í ár,“ segir Þorkell Máni Pétursson um Pepsi-deild kvenna en nýtt tímabil hefst í dag með fjórum leikjum.

Þorkell Máni er sérfræðingur í Pepsi-mörkum kvenna á Stöð 2 Sport en í honum eru allir leikir hverrar umferðar gerðir upp að henni lokinni. Fyrsti þáttur sumarsins verður sýndur klukkan 21.30 annað kvöld, í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport.

Valskonum var spáð titlinum í árlegri spá forráðamanna, þjálfara og fyrirliða liðanna í deildinni. Það mátti reyndar litlu muna á efstu þremur liðunum en Breiðablik og Stjarnan komu þar skammt á eftir.

Enginn að tala um Blikana

Þorkell Máni gerir ráð fyrir því að þessi þrjú lið verði í toppbaráttunni í sumar. „Svo veit maður aldrei hvað gerist ef Þór/KA og ÍBV tekst að taka eitt aukaskref og blanda sér í þessa baráttu. Það er ekki útilokað,“ segir Máni.

Engu að síður hefur Valur orðið fyrir miklum skakkaföllum í vetur en þrír öflugir leikmenn urðu fyrir því óláni að slíta krossband – Elísa Viðarsdóttir, Dóra María Lárusdóttir og Mist Edvardsdóttir. „Valur má ekki við því að lenda í frekari áföllum, svo mikið er víst.“

Hann segir að Breiðablik gæti grætt á því að Val hafi verið spáð titlinum og að Stjarnan eigi titil að verja. „Ég verð að vera heiðarlegur því mér virðist sem Blikarnir séu með sitt á hreinu. Það er heldur enginn að tala um Blikana og þeir gætu nýtt sér það.“

Leiðtogans saknað

Stjarnan getur að mati Mána gert alvöru tilkall til þess að verja titilinn sinn. Markahrókurinn Harpa Þorsteinsdóttir missti af síðustu leikjum síðasta tímabils þar sem hún var ólétt. Hún stefnir á að snúa aftur á völlinn síðar í sumar, sem yrði mikil búbót fyrir Stjörnuna.

Hins vegar verður Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar til margra ára, ekki með þar sem hún ber barn undir belti. Þorkell Máni segir að Stjarnan gæti saknað hennar mjög.

„Það vantar þennan leiðtoga á miðjunni sem hún hefur verið fyrir Stjörnuna. Hún á eftir að standa á hliðarlínunni og vera eins og einn úr þjálfarateyminu – ég efast ekki um það – en inni á vellinum gæti liðið saknað þess fordæmis sem hún hefur gefið.“

Máni bendir þó á að Stjarnan sé með afar sterkan leikmannahóp og að koma Guðmundu Brynju Óladóttur frá Selfossi gæti haft mikið að segja.

KR-ingar klókir

Hann á von á því að deildin verði tvískipt, rétt eins og í fyrra. Þau lið sem verði í neðri hlutanum séu ekki nógu öflug til að eiga möguleika á að blanda sér í baráttu liðanna í efri hlutanum. Hann segir þó að lið eins og KR geti staðið í hverjum sem er á góðum degi.

„KR-ingar, undir stjórn Eddu Garðarsdóttur, sýndu að þeir eru klókir og útsjónarsamir. KR er með betra lið nú en í fyrra og nýju leikmennirnir sem komu inn gætu hjálpað þeim í jöfnum leikjum. KR-ingar létu oft vel finna fyrir sér gegn betri liðunum í fyrra,“ segir Máni.

Hann reiknar með því að Haukar og Fylkir verði í basli í sumar og að Grindavík sé að miklu leyti óskrifað blað.

Mæta eða þegja

Máni segir að sumarið sé mikilvægt fyrir íslenska kvennaknattspyrnu, ekki síst þar sem landslið Íslands keppir á EM í Hollandi sem hefst um miðjan júlí.

„Við eigum mun sterkari deild hér heima en margir gera sér grein fyrir,“ segir hann og bendir á að Hallbera Guðný Gísladóttir, sem fór frá Breiðabliki til Djurgården í Svíþjóð, hafi hoppað úr Pepsi-deildinni beint í byrjunarliðið í einni sterkustu deild heims.

„Það segir sitt um gæði íslensku deildarinnar sem eru mjög mikil. Deildin á skilið að það sé betur mætt á leikina en verið hefur. Þetta gæti nefnilega orðið geggjað sumar fyrir íslenskan kvennafótbolta,“ segir hann.

„En hver og einn verður að finna það hjá sjálfum sér. Það þýðir ekki að sitja heima hjá sér og gagnrýna allt og alla á samfélagsmiðlum. Liðin, umgjörðin um leikina og umfjöllunin í fjölmiðlum verður betri ef þú mætir á völinn. Ef þú mætir á völlinn þá máttu hafa skoðun á þessum málum, annars skaltu bara þegja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×