Íslenski boltinn

Rakel: Fleiri en þrjú lið sem geta barist á toppnum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breiðablik varð af Íslandsmeistaratitlinum í Pepsi-deild kvenna í fótbolta í fyrra á lokasprettinum. Það varð meistari árið 2015 en þurfti að sjá á eftir titlinum í Garðabæinn til Stjörnunnar í fyrra.

Blikum er spáð öðru sæti í sumar á eftir Val en markmið þessa vel mannaða og öfluga Blikaliðs sem varð meistari meistaranna á dögunum eftir 3-0 sigur á Stjörnunni er að sjálfsögðu að verða aftur meistari.

„Vonandi verðum við einu sæti ofar. Við förum allavega í alla leiki til að vinna þá,“ segir Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks.

„Okkur hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu. Við erum með gott lið og ég hlakka bara til að byrja sumarið.“

Rakel viðurkennir að Blikar voru í sárum eftir að ná ekki að verja Íslandsmeistaratitilinn á síðasta ári.

„Það var náttúrlega ömurlegt að tapa og lenda í öðru sæti í fyrra. Við förum í alla leiki til að vinna þá og við ætlum okkur að vera einu sæti ofar en þessi spá segir til um. Deildin er aftur á móti mjög sterk þannig þetta kemur í ljós,“ segir Rakel en hvernig verður það að spila í Pepsi-deildinni með EM í kollinum?

„Maður þarf bara að skipuleggja sig vel. Maður er alltaf að hugsa um EM en það þarf að einbeita sér að einu í einu. Maður þarf að einbeita sér að Pepsi-deildinni þegar hún er í gangi en samt undirbúa sig fyrir EM.“

Valur, Breiðablik og Stjarnan eiga að berjast um titilinn samkvæmt spánni en eru fleiri lið sem koma til greina?

„Þór/KA og ÍBV eru með mjög sterk lið. KR er búið að fá til sín frábæra leikmenn þannig ég býst við mjög sterkri deild í ár. Það eru fleiri lið en þessi þrjú sem geta barist á toppnum,“ segir Rakel Hönnudóttir.

Allt viðtalið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Valskonum spáð titlinum

Valur og Breiðablik munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í efstu deild kvenna í sumar samkvæmt spá þjálfara, fyrirliða og forráðamanna félaganna.

Gæti orðið geggjað sumar

Keppni í Pepsi-deild kvenna hefst í kvöld með fjórum leikjum. Þorkell Máni Pétursson, einn sérfræðinga Pepsi-marka kvenna á Stöð 2 Sport, reiknar með hörkubaráttu bæði á toppi og botni deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×