Lögregla í Stokkhólmi telur að rannsókn hryðjuverkaárásar föstudagsins gæti tekið um ár. Tveir eru í haldi lögreglu sem rannsakar nú hvort að fleiri hafi komið að skipulagningu árásarinnar. Mörg hundruð manns hafa þegar verið yfirheyrðir.
Þetta kom fram á fréttamannafundi sænsku lögreglunnar og öryggislögreglunnar í hádeginu.
Mats Löfving, yfirmaður hjá ríkislögreglustjóraembætti Svíþjóðar, áætlar að mikinn mannskap þurfi til að ljúka rannsókninni, meðal annars sérfræðinga í rannsókn tölvuglæpa.
Rakhmat Akilov, 39 ára Úsbeki, er talinn hafa rænt og ekið vörubíl niður Drottninggatan og orðið fjórum að bana í árás föstudagsins. Annar maður er í haldi vegna gruns um að tengjast skipulagningu árásarinnar.
Ríkislögreglustjórinn Dan Eliasson leggur áherslu á að lögregla telji sig fullvissa um að vera með raunverulegan árásarmann í haldi.
Segir hann að lögregla komi til með að verða sýnilegri á götum Stokkhólms á næstu dögum.
